Fótbolti

Í meistaradeildarhópi PSV en kemst ekki í 21 árs landslið Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Albert þegar hann gekk í raðir PSV á dögunum.
Albert þegar hann gekk í raðir PSV á dögunum.
Albert Guðmundsson, hinn átján ára gamli leikmaður PSV Eindhoven, verður í 25 manna leikmannahópi hollenska liðsins í Meistaradeild Evrópu í vetur. PSV leikur í riðli með Manchester United, CSKA Moskvu og Wolfsburg.

Athyglisvert er að Philip Cocu velji Albert í hópinn en sýnir mögulega það traust og þá trú sem hollenski miðjumaðurinn fyrrverandi ber til Alberts. PSV keypti Albert frá Heerenveen fyrr í sumar.

Vesturbæingurinn Albert er hins vegar ekki í tuttugu manna leikmannahópi 21 árs landsliðsins sem mætir Frökkum og Norður-Írum í undankeppni EM 5. og 8. september. Albert var heldur ekki í hópnum þegar Ísland lagði Makedóníu í fyrsta leik liðsins í riðlinum, 3-0 á Vodafone-vellinum í júní.

Albert á einn leik að baki með 21 árs landsliðinu. Hann kom síðastur varamanna inn á 81. mínútu í 3-0 tapi í vináttulandsleik gegn Rúmeníu í mars.

Samkeppni um framherjastöðuna

Albert er framherji en meðal framherja í landsliðshópi Íslands eru Viktor Jónsson í Þrótti, Kristján Flóki Finnbogason hjá FH, Aron Elís Þrándarson hjá Álasundi og Árni Vilhjálmsson hjá Lilleström.

Albert er tveimur til þremur árum yngri en ofantaldir leikmenn og fastamaður í 19 ára landsliði Íslands sem hefur ekki náð að landa sigri í síðustu átta leikjum sínum undir stjórn Kristins Rúnars Jónssonar. Þorvaldur Örlygsson tók við þjálfun liðsins í desember síðastliðnum en næsti leikur liðsins er gegn Norður-Írum í október.

Óhætt er að fullyrða að aldrei hafi það gerst áður að íslenskur leikmaður í leikmannahóoi liðs í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu komist  ekki í 21 árs landslið þrátt fyrir að vera gjaldgengur í það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×