Lífið

Í hjartastopp fyrir framan fjölskylduna

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Heiða er mikið heilasködduð og algjörlega ósjálfbjarga.
Heiða er mikið heilasködduð og algjörlega ósjálfbjarga. Vísir/Arnþór
Hún er ákveðin í því að segja sína sögu ef hún getur hjálpað einhverjum ungum konum sem eru í svipaðri stöðu,“ segir Halldóra Lúðvíksdóttir, móðir Bjarnheiðar Hannesdóttur.

Bjarnheiður, eða Heiða eins og hún er ávallt kölluð, fékk hjartastopp í desember árið 2012. Hjartað hennar var stopp í tuttugu mínútur. Henni var vart hugað líf en hún barðist fyrir tilvist sinni á þessari jörð og hafði betur. Hjartastoppið olli miklum heilaskaða og er Heiða algjörlega ósjálfbjarga í dag. Hún getur lítið talað, sér nánast ekki neitt en ástæðu hjartastoppsins má rekja til átröskunar sem hún hafði glímt við frá átján ára aldri. Vegna erfiðleika með tal nýtur hún stuðnings móður sinnar, eiginmanns síns, Snorra Hreiðarssonar, og vinkonu sinnar, Sigrúnar Lilju Guðjónsdóttur, við að segja sína sögu sem víti til varnaðar fyrir aðra. Bjarnheiður prýðir forsíðu helgarblaðs Fréttablaðsins.

Fangi í eigin líkama

„Hún er heilasködduð eftir tuttugu mínútna hjartastopp og þakin svokölluðum spasma. Það lýsir sér í því að vöðvarnir vinna hver á móti öðrum. Þessu fylgja líka verkir. Hrikalegir verkir. Einu sinni fékk hún verkjakast sem stóð í viku. Það var hræðilegur tími. Heiða er með mjög lélega sjón en rökhugsunin er alveg til staðar. Þetta er enn Heiða. Það er það eina sem skemmdist ekki,” segir Snorri þegar hann lýsir veikindum konu sinnar.

„Hún hefur oft lýst þessu eins og hún sé fangi í eigin líkama. Lífið hennar myndi breytast svakalega ef hún gæti til dæmis talað tíu prósentum betur en hún gerir. Núna getur hún lítið tekið þátt í miklum samræðum,“ segir Snorri og Heiða grípur inn í.

„Það er glatað.“

„Já, fólk er óöruggt þegar það talar við hana því það skilur hana ekki. Hún finnur það auðvitað. Og þar af leiðandi forðast fólk að tala við hana því það kann ekki að bregðast við í þessum aðstæðum og vill ef til vill ekki gera sig að fífli,“ bætir Snorri við.

„Pabbi, skrúfaðu niður rúðurnar!“

Heiða fékk hjartastopp þann 15. desember árið 2012. Þá var hún í bíl með fjölskyldu sinni, Snorra og börnunum þeirra þremur, Dóru Mjöll, þá sex ára, Hannesi Arnari, syni Heiðu og uppeldissyni Snorra, þá ellefu ára, og Önnu Halldóru, dóttur Snorra og uppeldisdóttur Heiðu, þá þrettán ára. Það tekur greinilega á Snorra þegar hann lýsir þessum örlagaríka degi.

„Við vorum á leiðinni suður í Voga í afmæli hjá ömmu minni. Heiða fékk skyndilega hjartastopp. Það gerðist á einni sekúndu. Hún sagði við mig að hún væri með verk fyrir brjóstinu og örskotsstund síðar lútir hún höfði. Ég og krakkarnir héldum að hún væri að grínast því að húmorinn hennar hefur alltaf verið svartur. Svo sá ég að hún var með kreppta fingur þannig að ég keyrði strax út í kant og hringdi í 112,“ segir Snorri.

„Ég byrjaði á að reisa hana við og opna öndunarveginn. Tvö yngri börnin okkar náttúrulega trylltust og hlupu út úr bílnum. En elsta dóttir okkar hjálpaði mér. „Pabbi, skrúfaðu niður rúðurnar!“ kallaði hún og ég skrúfaði allar rúðurnar niður. Lögreglan var stutt frá þannig að ég var nýbúinn að rífa hana út úr bílnum og ætlaði að fara að byrja hjartahnoð þegar löggan kom og henti mér frá,“ segir Snorri. Í öllum látunum hugsaði Snorri afar skýrt og náði að hringja í föður sinn sem kom um hæl að sækja börnin. Hannes, sonur þeirra, man þó ljóslifandi eftir þessum degi.

„Hann segist aldrei gleyma þessum degi meðan hann lifir,“ segir móðir Heiðu.

Styrktarsíða Bjarnheiðar á Facebook

Styrktarsjóður Heiðu Hannesar á hlaupastyrkur.is

Heiða býr yfir gríðarlega miklum styrk og reynir alltaf að líta á jákvæðu hliðarnar.

Tengdar fréttir

„Ekki láta aðra segja þér hvernig þú átt að líta út“

Bjarnheiður Hannesdóttir fór í hjartastopp í tuttugu mínútur árið 2012. Hún glímdi við átröskun um árabil og hefur þau skilaboð til annarra sem glíma við sjúkdóminn að útlitið sé ekki neitt á við að vera heilbrigður.

Bindur vonir við stofnfrumumeðferð á Indlandi

Bjarnheiður Hannesdóttir er heilasködduð og ósjálfbjarga eftir að hún fór í hjartastopp í desember árið 2012. Draumur hennar er að komast í stofnfrumumeðferð á Indlandi og hefur Styrktarsjóður Heiðu Hannesar verið stofnaður til að safna fyrir meðferðinni.

Glímdi við átröskun frá átján ára aldri

Bjarnheiður Hannesdóttir fékk hjartastopp í desember árið 2012. Aðdrangandinn að hjartastoppinu var langur en Bjarnheiður hafði glímt við átröskun um árabil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×