Innlent

Í haldi í sólarhring af ótta við lögreglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan hefur verið dugleg að birta myndir úr daglegu amstri á Instagram-síðu sinni.
Lögreglan hefur verið dugleg að birta myndir úr daglegu amstri á Instagram-síðu sinni.
Afríkubúi var á dögunum tekinn fyrir þjófnað í höfuðborginni. Var hann fluttur á lögreglustöðina á Grensásvegi þar sem við tók nokkuð reglulegt vandamál þegar fólk úr öðrum menningarheimum er annars vegar að sögn fulltrúa lögreglunnar. Maðurinn neitaði að gefa upp nafn sitt. Fyrir vikið var ekki hægt að ganga frá skýrslu og ljúka málinu.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að fólk frá öðrum heimshornum sé í sumum tilfellum vanara því að líta á lögregluna sem óvin sinn en vin. Þannig vilji lögreglan hér á landi hins vegar alls ekki hafa það.

„Við viljum alls ekki að fólk sé hrætt við lögregluna,“ segir Jóhann Karl í samtali við Vísi.

Þegar maðurinn gaf upp nafn sitt eftir að hafa verið í haldi lögreglu í rúman sólarhring tók skamman tíma að leysa málið enda brotið ekki það alvarlegt. Málið hefði verið hægt að leysa á nokkrum mínútum hefði ekki verið fyrir hræðslu mannsins við lögreglu.

Jóhann segir lögregluna vilja koma því á framfæri til landsmanna allra sem erlendra gesta að lögregluna eigi ekki að óttast. Lögreglan hafi sem dæmi sent fulltrúa sína á Fjölmenningardaginn síðastliðið vor til þess að kynna starf sitt fyrir gestum hátíðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×