Innlent

Í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa beitt sambýliskonu sína grófu ofbeldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti konan miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi mannsins en hún sagði hann meðal annars hafa slegið sig, sparkað í höfuð hennar, hárreitt hana og kýlt í síðuna á henni af og til síðan í október síðastliðnum.
Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti konan miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi mannsins en hún sagði hann meðal annars hafa slegið sig, sparkað í höfuð hennar, hárreitt hana og kýlt í síðuna á henni af og til síðan í október síðastliðnum. Vísir/Getty
Karlmaður hefur verið úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald en hann er grunaður um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Konan tilkynnti lögreglu um ofbeldið fyrir viku síðan en hún og maðurinn hafa verið í sambúð um nokkurra mánaða skeið. Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti konan miklu líkamlegu og andlegu ofbeldi mannsins en hún sagði hann meðal annars hafa slegið sig, sparkað í höfuð hennar, hárreitt hana og kýlt í síðuna á henni af og til síðan í október síðastliðnum. Þá sagði hún lögreglu að börn sín höfðu oft orðið vitni að ofbeldinu.

Síðastliðinn föstudag hafi maðurinn síðan byrjað að hafa í líflátshótunum við konuna auk þess sem hann kýldi og sparkaði í hana. Hún hafi reynt að flýja en hann náð henni og haldið ofbeldinu áfram. Sagði konan lögreglu að sonur hennar hafi orðið vitni að ofbeldinu og hann hafi grátið allan tímann.

Maðurinn neitar sök en í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að lögreglan sé með annað mál á hendur manninum til rannsóknar þar sem hann er grunaður að hafa ráðist á konuna í október.

Brot mannsins varða allt að 10 ára fangelsi og segir í úrskurðinum að þau séu þess eðlis að rétt sé að hafa manninn í haldi vegna almannahagsmuna. Hann mun því sitja í gæsluvarðhaldi þar til miðvikudaginn 2. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×