Viðskipti innlent

Í fyrsta sinn sem Icelandair eltir Wow?

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/VILHELM
Icelandair hyggst nú bjóða flug til Berlínar allt árið um kring frá og með nóvember næstkomandi. Þetta tilkynntu forsvarsmenn félagsins á föstudag, einungis þremur dögum eftir að fregnir bárust af gjaldþroti flugfélagsins Air Berlin sem flogið hefur reglulega milli borgarinnar og Keflavíkur á síðustu misserum.

WOW air hefur flogið til þýsku höfuðborgarinnar allt frá stofnun félagsins árið 2012 en um áratugur er síðan Icelandair flaug þangað síðan. Samkvæmt því sem vefsíðan Túristi.is kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem Icelandair hefur hafið flug til borgar sem WOW flýgur þegar til. WOW hefur hins vegar farið í samkeppni við Icelandair á mörgum leiðum á þeim fimm árum sem félagið hefur verið starfandi.

Eftir tilkynningu Icelandair á föstudag brást WOW við með því að fjölga flugferðum sínum til Berlínar. Flogið verður til Schönefeld-flugvallar í austurhluta borgarinnar átta sinnum í viku, fjölgun um eina ferð frá því sem áður var.

Greinendur telja því ljóst að íslensku flugfélögin ætli að nýta sér það tómarúm sem myndast á markaðnum eftir brotthvarf Air Berlin, sem séð hefur fyrir um 30% allra flugferða til borgarinnar. Túristi telur til að mynda að tækifæri flugfélaganna felist ekki síst í flugi frá Berlín til Bandaríkjanna, með tengingu á Keflavíkurflugvelli. Fram kemur í frétt Túrista að Air Berlin fljúgi í dag til fimm borga vestanhafs og þær eru allar hluti af leiðakerfi WOW air. Icelandair fljúgi til tveggja af þessum fimm.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×