Innlent

Í fangelsi fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir og margvísleg önnur brot

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var dæmdur til 15 mánaða fangelsisvistar.
Maðurinn var dæmdur til 15 mánaða fangelsisvistar. Vísir/GVA
Karlmaður hefur verið í dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi, þar af tólf mánuði skilorðsbundið, fyrir margvísleg hegningar og vopnalagabrot framin á tímabilinu nóvember 2014 til október 2016.

Meðal þess sem maðurinn var sakfelldur fyrir var tilraun til ráns versluninni Háteigsbúð við Háteigsveg 2 þar sem hann krafði, ásamt félaga sínum, starfsmenn um peninga og sígarettur. Ránið fór út um þúfur þegar viðskiptavinur kom inn í verslunina.

Þá var hann sakfelldur fyrir þrjár sérsaklega hættulegar líkamsárasir, þar af eina þar sem réðst á mann og sló hann með 456 gramma þungu grjóti með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut skurð á enni sem sauma þurfti saman með fjórum sporum.

Þá var hann einnig sakfelldur fyrir fjársvik en hann, í félagi við aðra aðila, sveik út vörur með því að framvísa greiðslukorti annars manns að verðmæti 124.115 króna. Reyndi hann meðal annars að svíkja út leikjatölvu í verslun Hagkaupa í Garðabæ ásamt tölvuleikjum, án árangurs en starfsmaður verslunarinnar hafði afskiptu af mönnunum og hélt greiðslukortinu eftir.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín en hann var á aldrinum sextán til átján ár þega hann framdi brotin og hafði hann ekki gerst sekur um refsiverð brot áður.

Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×