Innlent

Í fangelsi eftir að hafa stungið mann í lærið

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Maðurinn var fluttur á slysadeild í kjölfar atviksins en konan handtekin og færð í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Maðurinn var fluttur á slysadeild í kjölfar atviksins en konan handtekin og færð í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Vísir/Anton Brink
Íslensk kona var handtekin í lok apríl síðastliðins fyrir að hafa stungið karlmann nokkrum sinnum í lærið með hníf. Konan er fædd árið 1983.

Árásin átti sér stað í bíl í Breiðholti en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tengjast konan og maðurinn ekki neitt og hittust í fyrsta skipti kvöldið sem atvikið átti sér stað. Til átaka kom milli þeirra eftir að hann hafði fengið far hjá henni en önnur kona var með í för. Sú kona er ekki sakborningur í málinu. Þá herma heimildir Fréttablaðsins að deilt hafi verið um greiðslu fyrir farið.

Maðurinn var fluttur á slysadeild í kjölfar atviksins og konan handtekin og færð í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Í dag er hún í fangelsinu á Akureyri. Hún segist muna lítið sem ekkert eftir atvikinu.

Samkvæmt heimildum blaðsins er til upptaka af samskiptum mannsins og konunnar áður en hún stakk hann sem verður notuð sem sönnunargagn í málinu.

Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir konunni en hún var á reynslulausn þegar atvikið átti sér stað og því ekki þörf á gæsluvarðhaldsúrskurði. Hún fékk dóm árið 2013 fyrir ítrekaðan ölvunarakstur og fíkniefnalagabrot.

Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn málsins vera á lokastigi og að málið verði sent á ákærusvið á næstu dögum. Þá mun koma í ljós hvort gefin verði út ákæra.

„Málið er í rannsókn og þar af leiðandi get ég ekki tjáð mig um það að svo stöddu,“ segir Steinbergur Finnbogason, verjandi konunnar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 24. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×