Fótbolti

Ronaldo kominn með 25 þrennur fyrir Real Madrid | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Real Madrid vann öruggan 5-1 sigur á Elche á heimavelli í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Cristiano Ronaldo var einu sinni sem oftar á skotskónum fyrir Real Madrid í kvöld. Portúgalinn byrjaði þó ekki vel en hann fékk á sig vítaspyrnu á 15. mínútu sem Edu Albácer skoraði úr.

Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Gareth Bale metin með skalla eftir fyrirgjöf James Rodríguez og á 28. mínútu kom Ronaldo Madrid yfir úr vítaspyrnu sem Brasilíumaðurinn Marcelo nældi í.

Marcelo átti svo fyrirgjöf á Ronaldo sem skoraði þriðja mark Madrid á 32. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Ronaldo fullkomnaði þrennuna á 80. mínútu úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Fjórða mark Portúgalans og fimmta mark Evrópumeistaranna kom svo í uppbótartíma eftir sendingu frá Bale.

Ronaldo skoraði einnig þrennu gegn Deportivo La Coruna í síðustu umferð og er því kominn með sjö mörk í síðustu tveimur leikjum. Þetta var 25. þrennan sem Ronaldo skorar fyrir Real Madrid síðan hann kom til félagsins frá Manchester United sumarið 2009.

Mörkin sem Ronaldo skoraði í kvöld má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×