Enski boltinn

Lokadegi félagaskiptagluggans á Englandi lokið | Martial stærsti bitinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hvað gerir Louis van Gaal í dag?
Hvað gerir Louis van Gaal í dag? vísir/getty
Félagsskiptaglugganum í Englandi lokaði klukkan 17:00 í dag, en Vísir fylgdist vel með gangi mála í allan dag. 

Margt og mikið gerðist í dag, en slegið var met. Aldrei áður hafa liðin í ensku úrvalsdeildinni eytt jafn miklum fjárhæðum og nú, en rúmlega 860 milljónum punda var eytt í glugganum. 

Stærstu kaup dagsins gerðu Manchester United þegar þeir festu kaup á hinum nítján ára gamla Anthony Martial fyrir 36 milljónir punda.

Hér að neðan má sjá allt það helsta og nánar má lesa um einstaka kaup í sérfréttum sem fylgja nokkrum lýsingunum.

Gluggadagur í beinni:

18:35
Jæja það virðist sem svo að engin stór félagsskipti hafi verið á síðustu stundu. Það er enn óvíst með félagsskipti Aaron Lennon til Everton og lánssamning Tiago Ilori til Aston Villa.

18.03: Gylfi Þór Sigurðsson
mun ekki spila fleiri leiki með Nathan Dyer þetta tímabilið, en Dyer er farinn á láni til Leicester út þetta leiktímabil.

18.02:
Nýliðarnir í Bournemouth sem unnu sinn fyrsta sigur í ensku úrvalsdeildinni um þar síðustu helgi fengu Joe Bennett lánaðan frá Aston Villa í dag. Bennett verður hjá Bournemouth að minnsta kosti þangað til í janúar.

17.58: Manchester United hefur fengið annan leikmann í dag. Stuðningsmenn liðsins taka nú líklega andköf við að lesa þetta, en það er ekki Marco Reus, Zlatan Ibrahimovic eða nein stórstjarna. Það er enginn annar en Regan Poole sem hefur samþykkt að ganga í raðir Rauðu djöflanna. Hann kemur frá Newport og er kaupverðið ekki gefið upp.

17.51:
Jeremy Peace, forseti WBA, og félagið sjálft hefur gefið út yfirlýsingu varðandi mál Saido Berahino og Tottenham. Hann greindi frá því á Twitter-síðu sinni í dag að hann myndi ekki spila fleiri fyrir Jeremy, en Jeremy segir að Tottenham hafi reynt að fá hann fyrir alltof, alltof lága fjárhæð. Forsetinn segir að nú muni menn horfa fram á veginn og Berahino verði áfram í herbúðum félagsins og muni spila.

17.49:Jose Enrique, bakvörður Liverpool, segir að það sé bull og vitleysa að það hafi komið tilboð frá WBA inn á hans borð. Hann segist ánægður hjá félaginu og muni berjast fyrir sæti sínu í liðinu.

17.45:
Aston Villa reyndi að klófesta Dimitar Berbatov, sem er nú án félags, án árangurs. Berbatov lék á síðustu leiktíð með Mónakó og þar áður meðal annars með Manchester United. Berbatov er enn án félags.

Hector skrifaði undir hjá Chelsa í dag, en eyðir svo restinni af tímabilinu hjá Reading.vísir/twitter-síða Chelsea
17.30: Everton er að styrkja sig. Aaron Lennon er að koma frá Tottenham, en talið er að kaupverðið sé fjórar milljónir punda. Hann var á láni frá Tottenham hjá Everton í fyrra, en tilkynning ætti að koma út á allra næstu mínútum eða klukkutímum.

17.25:
Lítið að gerast eins og er. Við verðum áfram á vaktinni. Ekki örvænta!

17.10:
Sittlítið af hvoru. Liverpool og Aston Villa hafa fengið frest til sjö, að íslenskum tíma, til þess að ganga frá lánssamningi um Tiago Illori, en hann er á leið til Villa. Emmanuel Adebayor, framherji Tottenham, náði ekki samkomulagi við Tottenham um að fá sig lausan og því verður ekkert að því að hann fari til Hamranna. 

17.03: Anthony Martial,
nýjasti leikmaður Manchester United, fær 9-una hjá United. Pressan eykst.

17.00: GLUGGANUM LOKAÐ!
Einhver félagsskipti eiga þó klárlega eftir að detta í gegn, en honum hefur nú formlega verið lokað. Við munum þó að sjálfsögðu áfram fylgjast með og færa ykkur nýjustu fréttir af því sem er að gerast.

16.54
Chelsea bætir við sig öðrum varnarmanni. Michael Hector, leikmaður Reading, skrifaði undir fimm ára samning hjá ensku meisturunum en hann eyðir tímabilinu á láni hjá Reading.

16.49 Jon Walters
er ekki á förum frá Stoke. Hann á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum en Stoke hefur boðið honum nýjan samning.

16.41
Nýliðar Watford búnir ganga frá kaupunum á Victor Ibarbo, en hann kemur frá Roma. Obbi Oularé var einnig að ganga í raðir Watford á síðasta klukkutímanum, en það kemur betur fram hér neðar í greininni.

Martial nokkuð ánægður með að vera genginn í raðir United.vísir/heimasíða Manchester United
16:40 Emmanuel Adebayor er í viðræðum við Tottenham um að vera leystur undan samningi sínum svo hann geti gengið til liðs við West Ham. Hamarnir geta ekki fengið fleiri leikmenn á láni og þurfa því að kaupa framherjann.

16:35
Aston Villa og Liverpool búin að komast að samkomulagi um að portúgalski miðvörðurinn Tiago Ilori gangi til liðs við Aston Villa á eins árs lánssamning. Tim Sherwood leggur mikla áherslu á að styrkja varnarleikinn en hann hefur þegar gengið frá kaupunum á Joleon Lescott.

16.32:
Nýtt met hefur verið slegið í þessum félagsskiptaglugga, en með komu Anthony Martial til United hefur metið verið slegið. Félögin í ensku úrvalsdeildinni hafa samtals eytt rúmlega 858 milljónum punda í glugganum.

16.25:
BRJÓTANDI! Anthony Martial er genginn í raðir United á fjögurra ára samningi. Kappinn kostar ekki nema 36 milljónir punda, en taka skal fram að hann er einungis nítján ára gamall. Martial er sjötti leikmaðurinn sem United fær í sumar, en hann hefur ekki enn spilað A-landsleik fyrir franska landsliðið.

16.10: Saido Berahino
er ekki parsáttur við að WBA sé ekki að hleypa honum til Tottenham. Hann birti eftirfarandi tíst nú fyrir skömmu: „Sad how i cant say exactly how the club has treated me but i can officially say i will never play Jeremy Peace." Semsagt brjálaður!

16.06: Nathan Dyer
er mættur til Leicester City og mun á næstu mínútum ganga í raðir liðsins frá Swansea, standist hann læknisskoðun. Leicester hefur byrjað tímabilið afar vel.

15.59:
Everton hefur neitað tilboði Norwich í Steven Naismith. Naismith hefur ekki verið í náðinni hjá Roberto Martinez, stjóra Everton, í upphafi leiktíðar, en hefur þó ávallt staðið sig vel þegar hann spilar. "Skoski Messi" eins og hann er iðulega kallaður er því væntanlega ekki á leið burt frá þeim bláklæddu í Bítlaborginni.

15.46:
Stoke City hefur áhuga á að krækja í hinn skeggjaða Mile Jedinak frá Crystal Palace, en hann hefur ekki fengið mörk tækifæri á þessari leiktíð.

15.42:
DeAndre Yedlin gæti farið til Sunderland á eins árs lánssamningi, en samningurinn er mjög nálægt því að ganga í gegn. Hann gekk í raðir Tottenham í janúar á þessu ári.



Lescott er farinn frá WBA til Villa.vísir/heimasíða Aston Villa
15.35: Manchester United var áhugasamt um að fá Marco Reus í sínar raðir, en Dortmund sagði að þeir þyrftu þá að rífa upp veskið. Þeir settu 60 milljónir punda, en United vildi mest borga 50 milljónir punda fyrir kappann. Januzaj fór til Dortmund í gær og vonar United til þess að það muni hjálpa til.

15.20:
Sky Sports fréttastofan greinir frá því að Chelsea hafi reynt að fá varnarmanninn Marquinhos frá PSG. Chelsea hefur boðið í tvígang í þennan 21 árs gamla leikmann, en hann hefur spilað 44 leiki fyrir PSG þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur spilað sex landsleiki, en við bíðum frekari frétta af þessu.

15.15:
WBA hefur neitað tilboði Tottenhma í Saido Berahino, framherja, upp á 23 milljónir punda, en the Telegraph greinir frá þessu. Tottenham leitar logandi ljósi að liðsstyrk í sóknarleikinn.

15.11:
Nýliðarnir í Watford hafa fengið liðsstyrk frá Belgíu. Obbi Oularé er kominn frá Club Brugge, en ekki er ljóst hversu mikið nýliðarnir greiða fyrir kappann. Hann skrifar undir fjögurra ára samning.

15.08:
West Ham heldur áfram að gera gott mót á lokadegi gluggans, en Michail Antonio er kominn frá Nottingham Forest. Hann skrifar undir fjögurra ára samning, en hann er fjórði leikmaðurinn sem West Ham fær í dag.

14.54:
Aston Villa hefur gengið frá kaupum á Joleon Lescott frá West Bromwich Albion, en hann spilaði 35 leiki fyrir WBA. Hann kom frá Manchester City.

14.40: Charlie Austin
verður að öllum líkindum áfram í herbúðum QPR, en hann hefur verið orðaður við hin ýmsu lið í glugganum. Þar er á ferðinni frábær framherji, en hann skoraði átján mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

14.00
Aston Villa hefur gengið frá kaupunum á Matija Sarkic, 18 ára gömlum svartfellskum markverði frá Anderlecht. Sarkic skrifaði undir þriggja ára samning við Villa.



Virgil van Dijk er orðinn Dýrlingur.mynd/saintsfc.com
13.34 Dýrlingarnir eru búnir að ganga frá kaupum á hollenska miðverðinum Virgil van Dijk eins og til stóð í morgun. Þessi stóri og stæðilegi miðvörður, sem komið hefur tvisvar til Íslands á síðustu tveimur árum með Celtic, skrifar undir fimm ára samning við Southampton. Flottur leikmaður þar á ferð.



13.15
Heimildir Sky Sports herma Leicester City ætli að fá kantmanninn Nathan Dyer á láni frá Swansea út tímabilið. Dyer hefur verið í herbúðum Swansea síðan 2009 en tækifærum hans hefur fækkað að undanförnu eftir komu Jefferson Montero og AndreAyew.

13.00 Samkvæmt frétt Daily Mail hefur José Mourino gefist upp á eltingaleiknum við John Stones hjá Everton. Hann hefur snúið sér að Michael Hector, 24 ára gömlum miðverði Reading. Sá strákur hefur farið ellefu sinnum út á láni frá Reading síðan hann samdi við liðið árið 2009. Crystal Palace hefur einnig mikinn áhuga á Hector en tæpt er að það hafi betur í baráttunni við Chelsea. Hector er sagður kosta 4,5 milljónir punda.

12.47 Nýliðar Bournemouth eru búnir að ganga frá kaupum á framherjanum Glenn Murray frá Crystal Palace. Nýliðarnir borga fyrir hann fjórar milljónir punda. Hann þarf þó væntanlega að bíða eftir sínu tækifæri hjá Bournemouth á meðan Callum Wilson skorar eins og enginn sé morgundagurinn.

12.00 David De Gea verður áfram í herbúðum Manchester United en Real Madrid ætlar ekki að áfrýja félagaskiptum hans. Guillem Balague, sérfræðingur Sky Sports, greindi frá þessu fyrir stundu. Keylor Navas, sem átti að fara til United í skiptum fyrir De Gea, verður sömuleiðis áfram í Madríd. Ótrúlegt mál, svo ekki sé meira sagt.

11.13 Daily Mail greinir frá því í „svakalegri afhjúpun“ sinni að Manchester United sé að borga 25 milljónum punda of mikið fyrir franska unglinginn. Lesa má meira um það hér.

10.50 Franska liðið Nantes staðfesti nú rétt í þessu að senegalski varnarmaðurinn Papy Djilobodji sé á leið til Chelsea. Djilobodji gerir fjögurra ára samning við Englandsmeistarana en talið er að kaupverðið sé í kringum þrjár milljónir punda.

10.40 Ef marka má heimildir Sky Sports hefur franski unglingurinn Anthony Martial staðist læknisskoðun hjá Manchester United. Við bíðum frekari frétta af Frakkanum unga sem United ætlar að gera að dýrasta unglingi allra tíma.

Króatinn Nikica Jelavic er mættur til West Ham og spilar undir stjórn samlanda síns.mynd/heimasíða west ham
10.35 West Ham hefur staðfest kaupin á króatíska framherjanum Nikica Jelavic frá Hull City. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Hamrana með möguleika á tveimur árum til viðbótar. West Ham verður þriðja liðið sem hinn þrítugi Jelavic spilar með á Englandi en hann kom upphaflega til Everton 2012. Hjá West Ham hittir hann fyrir fyrrum þjálfara sinn hjá króatíska landsliðinu, Slaven Bilic.

10.32
Samkvæmt Daily Mail hefur West Ham hafnað 15 milljóna punda tilboði Tottenham í miðjumanninn Cheikhou Kouyate.

10.20 Victor Moses
, framherji Chelsea, er búinn að ganga frá lánssamningi við West Ham. Chelsea virðist þó hafa einhverja trú á honum því áður en Moses fór skrifaði hann undir nýjan fjögurra ára samning við Chelsea. Hvert verður hann svo lánaður á næsta ári?

09.48
Fréttirnar af Manchester United halda áfram. Nú greinir Daily Express frá því að félagið ætli að bjóða Atlético Madríd 46 milljónir punda í franska vængmanninn AntoineGriezman. Er það leikmaðurinn sem United þarf? Annar lítill kantmaður sem getur spilað í holunni og er góður með boltann? Er ekki þörf á framherja?

09.25
FIFA hefur samþykkt beiðni Real Madrid um að taka De Gea-málið fyrir. Real og United ætla að keyra þetta í gegn í dag. Það er nokkuð ljóst.

09.13
Framherjinn sem stuðningsmenn Arsenal eru að bíða eftir kemur ekki í dag, samkvæmt Daily Telegraph. Wenger ætlar ekki að kaupa neinn í dag frekar en svo oft áður á gluggadegi, enda tapaði hann ekki 8-2 um helgina eins og hér forðum.

08.50
Sky Sports greinir frá því að Crystal Palace hafnaði tilboði Aston Villa í DwightGayle. Palace gerði það reyndar með látum og sagði tilboðið heimskulegt. Einhverjir miðlar höfðu svo greint frá því að AlexOxlade-Chamberlain væri á leið til Galatasaray frá Arsenal en The Times hefur fengið það staðfest að svo er ekki.



Ramiro Furi er mættur til Everton.mynd/evertonfc.com
08.30 Er Everton að búa sig undir að missa JohnStones? Bláliðar Bítlaborgarinnar eru allavega búnir að ganga frá kaupum á argentínska miðverðinumRamiroFunesMori sem er 24 ára gamall og á einn landsleik að baki. Chelsea vill ólmt frá Stones frá Everton en þar á bæ ætla menn ekki að selja. Líklega er Argentínumaðurinn bara mættur til að styrkja hópinn.

08.15
Ekki eru öll kurl komin til grafar í stóra David De Gea-málinu. Martin Ziegler, blaðamaður hjá PA, segir FIFA líklegt til að fella niður félagaskipti markvarðarins algjörlega en enn er óvíst hvort Real Madrid geti áfrýjað eða gert eitthvað í málinu. De Gea gæti alveg eins orðið markvörður Madrídarliðsins áður en dagurinn er úti.

08.00
Það er allt að verða vitlaust á félagaskiptamarkaðnum og menn varla búnir með morgunmatinn. Victor Moses er á leið á láni til West Ham frá Chelsea og JoseEnrique, bakvörður Liverpool, er á leið í læknisskoðun hjá West Bromwich. WBA nú þegar búið að fá JonnyEvans og AndersLindegaard frá Manchester United.

07.30 Tim Sherhood
, knattspyrnustjóri Aston Villa, ætlar að endurnýja kynnin við Emmanuel Adebayor, en Aston Villa er sagt vera fá Tógómanninn í sínar raðir frá Tottenham. Þá gæti villa einnig fengið varnarmanninn JoleonLescott, en frá þessu greinir BBC. Þá hefur JonathanWalters, framherji Stoke, sagt félaginu að hann vilji fara í dag. Írski framherjinn sér sæng sína uppreidda á Brittania. ESPN greinir frá því.

07.15 Mile Jedinak
, fyrirliði Palace, virðist vera á útleið, samkvæmt Sky Sports. West Bromwich, Sunderland og Watford eru öll sögð vilja fá Ástralann öfluga.

07.10
Southampton er að styrkja varnarleikinn hjá sér, en búist er fastlega við því að Dýrlingarnir kaupi Virgil van Dijk, miðvörð Celtic, frá skosku meisturunum í dag og borgi um 11,5 milljónir punda.  Það er eilítið Kára Árnasyni að kenna, en nokkuð ljóst var að Hollendingurinn yrði ekki áfram hjá Celtic eftir að Malmö skellti því í forkeppni Meistaradeildarinnar.

07.05
West Ham er búið að ganga frá lánssamningi á miðjumanninum Alex Song frá Barcelona en hann stóð sig mjög vel þegar hann var síðast hjá Hömrunum. Glen Murray, framherji Crystal Palace, er svo á leiðinni til nýliða Bournemouth.

07.00 Stærstu fréttir gærdagsins voru í Manchester; David De Gea fór ekki til Real Madrid eins og stóð til, en eitthvað klúðraðist í pappírsvinnunni. Þó félagaskiptaglugginn sé enn opinn á Englandi er búið að loka á Spáni. Þá seldi liðið JavierHernández til Bayer Leverkusen og lánaði Adnan Januzaj til Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×