Fótbolti

Þrjú mörk og þrjú stig í Astana

Óskar Ófeigur Jónsson í Astana skrifar
Strákarnir fagna með Eiði Smára eftir 25. landsliðsmarkið hans.
Strákarnir fagna með Eiði Smára eftir 25. landsliðsmarkið hans. vísir/afp
Ísland komst upp að hlið Tékklands á toppi A-riðils í undankeppni EM 2016 með öruggum 0-3 sigri á Kasakstan í Astana í dag. Birkir Bjarnason skoraði tvö marka Íslands og Eiður Smári Guðjohnsen eitt.

Jafnræði var með liðunum framan af leik. Heimamenn beittu mikið af löngum sendingum en þær báru lítinn árangur. Íslenska liðið náði smám saman betri tökum á leiknum og á 20. mínútu kom fyrsta markið.

Markvörður Kasakstan, Andrei Sidelnikov, átti þá misheppnaða spyrnu fram völlinn, beint á Jóhann Berg Guðmundsson, sem tók við boltanum og sendi hann svo inn fyrir vörn heimamanna á Eið Smára sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark frá september 2009.

Íslenska liðið hafði öll völd á vellinum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og á 32. mínútu bætti Birkir Bjarnason öðru marki við með skalla eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Seinni hálfleikur var tíðindalítill. Heimamenn voru meira inni í leiknum en sköpuðu fá færi. Það besta fékk varnarmaðurinn Reant Abdulin þegar hann skallaði boltann í stöng íslenska marksins á 63. mínútu.

Birkir Bjarnason bætti svo þriðja markinu við í uppbótartíma þegar hann skaut í varnarmann og inn.

Fleiri urðu mörkin ekki og Íslendingar fögnuðu sínum fjórða sigri í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×