Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: FH - Stjarnan 31-27 | Þriðji sigur FH í röð

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Kaplakrika skrifar
Vísir/Valli
FH lagði Stjörnuna 31-27 á heimavelli sínum að Kaplakrika í Olís deild karla í handbolta í kvöld. FH var 14-13 yfir í hálfleik.

Leikurinn fór rólega af stað og skoraði Stjarnan sitt fyrsta mark ekki fyrr en á sjöundu mínútu en þá hafði FH skorað tvö fyrstu mörk leiksins.

Aðeins fimm mörk voru skoruð tólf fyrstu mínútur leiksins og hafði FH skorað fjögur þeirra en þá breyttist leikurinn á augabragði.

Varnir liðanna sem voru góðar í byrjun leiks opnuðust upp á gátt. FH náði mest fjögurra marka forystu en Stjarnan náði alltaf að narta í hælana á FH og minnka muninn og var FH aðeins einu marki yfir í hálfleik.

Stjarnan náði að loka betur á sókn FH seint í fyrri hálfleiknum auk þess sem Sigurður Ingiberg Ólafsson átti góða innkomu í mark Stjörnunnar.

Stjarnan náði að jafna metin í upphafi seinni hálfleiks en þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum skildu leiðir.

FH lokaði vörninni með Ágúst Elí Björgvinsson sterkan í markinu og náði að skora níu mörk gegn tveimur á tólf mínútna kafla sem gerði út um leikinn. FH keyrði öflug hraðaupphlaup auk þess sem allt gekk upp hjá liðinu á þessum kafla leiksins.

Stjarnan náði að minnka muninn í lokin eftir að FH hafði skipt lykilmönnum útaf en það var of lítið og of seint til að ógna sigri Hafnfirðinga.

Þriðji sigur FH í röð staðreynd og liðið komið í annað sæti deildarinnar en Stjarnan féll á botninn með ósigrinum þar sem HK lagði Aftureldingu á sama tíma.



Benedikt: Eiginlega rúlluðum yfir þá„Við tókum sömu baráttu, kraftinn og greddu og í síðasta leik. Við vorum hrikalega kraftmiklir og vissum að það tæki tíma að slíta þá frá okkur og það kom í seinni hálfleik,“ sagði Benedikt Reynir Kristinsson sem lék afbrags vel í liði FH og nýtti öll sex skotin sín í leiknum.

„Þeir fengu mikið af hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik og þetta var bara eitt mark í hálfleik en við vissum að þetta tæki tíma. Við þurftum smá tíma í seinni hálfleik til að losa þá frá okkur.

„Við settum í fimmta gír og eiginlega rúlluðum yfir þá. Varnarleikurinn var mjög sterkur og Gústi (Ágúst Elí Björgvinsson) varði vel í seinni hálfleik. Það var það og hraðaupphlaup sem skiluðu þessum sigri,“ sagði Benedikt.

Eftir tvö töp í röð í kjölfarið á sigri á erkifjendunum í Haukum hefur FH nú unnið þrjá nokkuð örugga sigra í röð.

„Þetta lítur vel út. Við fórum ekkert á taugum við að tapa tveimur leikjum gegn ÍR og Aftureldingu. Við erum að bæta okkur jafnt og þétt. Það er stígandi í liðinu og góð stemning.

„Við erum með flottan hóp og ætlum okkur að gera flotta hluti. Þetta lítur vel út eins og er,“ sagði Benedikt.

Björn Ingi: Margir ljósir punktar í þessum leik„Við fáum örugglega eitthvað í kringum tíu hraðaupphlaup á okkur sem er allt of mikið. Við erum seinir til baka,“ sagði Björn Ingi Friðþjófsson markvörður Stjörnunnar.

„Við byrjuðum leikinn ekki alveg nógu vel en svo komum við til baka og það var jafnræði með liðunum í hálfleik. Síðan er þetta jafnt fyrstu tíu í seinni hálfleik en svo fáum við allt of mikið af hraðaupphlaupum á okkur.

„Það eru margir ljósir punktar í þessum leik. Þetta var miklu betri leikur en gegn Fram í síðustu umferð. Ég held að það geti allir verið sammála um það,“ sagði Björn Ingi sem hafði ekkert út á þær fjórar brottvísanir sem Stjarnan fékk í seinni hálfleik að setja á þeim kafla sem gerði út um leikinn.

„Mér fannst dómararnir allt í lagi. Þetta var enginn skandall. Þeir kunna alveg að dæma þessir strákar.

„Ég er sáttur mjög nokkuð margar stráka í þessum leik. Það var bara svekkjandi að geta ekki verið með þetta jafnt fram á síðustu og svo taka þetta, það hefur vantað svolítið hjá okkur.

„Það var allt of mikið að missa þetta í sjö mörk. Við pressum á þá í lokin og þeir lenda í vandræðum og við hefðum kannski mátt byrja á þessu fyrr eða ekki lenda sjö mörkum undir,“ sagði Björn Ingi léttur í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×