Enski boltinn

Chelsea niðurlægði Manchester United | Sjáðu mörkin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Chelsea gjörsamlega valtaði yfir Manchester United, 4-0, í ensku úrvalsdeildinni í dag. Ein versta frammistaða Manchester United í mörg ár og voru þeir bláu aldrei í neinum vandræðum með gestina.

Leikurinn fór fram á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, og voru ekki liðnar nema 29 sekúndur af leiknum þegar heimamenn voru komnir yfir eftir að Pedro skoraði fínt mark eftir varnarmistök hjá Chris Smalling.

Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum var staðan orðin 2-0 en það var Gary Cahill sem skoraði annað mark heimamanna og aftur eftir dapran varnarleik United. Staðan var 2-0 í hálfleik og útlitið dökkt fyrir gestina.

Eden Hazard skoraði þriðja mark Chelsea hálftíma fyrir leikslok og gerði alveg út um vonir United, um að fá eitthvað út úr þessum leik. 

N´Golo Kante prjónaði sig síðan í gegnum vörn United tíu mínútum síðar og það eins og að drekka vatn. Kante lagði boltann auðveldlega framhjá David de Gea í markinu og staðan orðin 4-0.

Niðurstaðan 4-0 sigur Chelsea sem niðurlægði lið Manchester United í dag. Chelsea er komið með 19 stig í deildinni, einu stigi á eftir bestu liðinum á toppnum. United er aðeins með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×