Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Akureyri 22-15 | Akureyringar hlupu á vegg

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Valur lagði Akureyri 22-15 á heimavelli í 19. umferð Olís deildar karla í handbolta í kvöld. Valur var 12-11 yfir í hálfleik.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum skemmtilegu myndum hér fyrir ofan.

Jafnræði var með liðunum allan fyrri hálfleikinn og leyndi sér ekki að leikurinn var fyrsti leikur eftir langt frí. Bæði lið hafa leikið mun betur á leiktíðinni en spenna var þó í leiknum fyrstu 30 mínúturnar.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og komst í 15-11 en þá skoraði liðið ekki í heilar 13 mínútur. Valsmenn örvæntu þó ekki því liðið fékk fín færi en strandaði fyrsta og fremst á öflugum ungum markverði Akureyringa, Bernharði Antoni Jónssyni.

Akureyringar nýttu sér ekki vandræði Vals sem skildi. Liðið minnkaði muninn í tvö mörk en komst ekki nær því sóknarleikur liðsins varð sífellt vandræðalegri er leið á seinni hálfleikinn. Liðið átti í miklum vandræðum með að skapa sér færi auk þess sem Hlynur Morthens fór mikinn í marki Vals.

Eftir að stíflan brást hjá Val og varð aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Valsmenn með alla leikmenn heila í fyrsta sinn á leiktíðinni unnu að lokum sannfærandi sigur með Guðmund Hólmar Helgason og Elvar Friðriksson áberandi í sókninni.

Akureyringar eiga í miklum meiðslavandræðum. Liðið saknar lykilmanna auk þess sem leikmenn leika meiddir. Munar mikið um að Bergvin Þór Gíslason gengur ekki heill til skógar en hann lék þó stóran hluta leiksins en það var auðséð að öxlin væri að angra hann.

Akureyri má ekki við meiðslum sem þessum þegar liðið mætir liði í gæðaflokki Vals og þó vörnin hafi staðið ágætlega átti liði engar lausnir í sókninni þegar menn fóru að þreytast enda skoraði liðið aðeins 4 mörk í seinni hálfleik.

Valur náði Haukum að stigum í efsta sæti deildarinnar en Haukar eiga leik til góða á morgun gegn Aftureldingu. Akureyri er um miðbik deildarinnar.



Guðmundur Hólmar:  Verðskuldaður sigur


„Vörnin þéttist og Bubbi (Hlynur Morthens) fann sig vel. Svo fundum við leiðina framhjá markverðinum þeirra þá breikkaði bilið mjög fljótt. Þetta var verðskuldaður sigur,“ sagði Akureyringurinn Guðmundur Hólmar Helgason leikmaður Vals.

„Þeir eiga við meiðsli að stríða og eru ekki með breiðasta hópinn en þeir sem komu inn lögðu sig alla í þetta en það dró af þeim í seinni hálfleik,“ sagði Guðmundur Hólmar um sína gömlu félaga.

„Öll stig eru ótrúlega mikilvægt. Það er gott að byrja árið svona. Það er mjög jákvætt.“



Sverre: Tækifærið var þarna


„Ég var mjög ánægður með fyrri hálfleikinn og við vorum með annað í huga fyrir seinni hálfleikinn,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson þjálfari Akureyrar.

„Við missum þá aðeins fram úr okkur í byrjun seinni hálfleiks en náum að minnka muninn og fáum svo fjölmarga sénsa til að gera betur úr þeirri stöðu. Við náum aldrei að minnka þetta í eitt mark eða gera betur og svo ná þeir öðru sprett og þá var þetta erfitt.“

Það munaði mikið um að lykilmenn á borð við Brynjar Hólm Grétarsson og Sigþór Heimisson vantar í lið Akureyrar auk þess sem Bergvin Þór Gíslason lék meiddur. Sverre vill samt ekki nota það sem afsökun.

„Tækifærið var þarna en við vorum orðnir hálf lúnir með þunnskipaðan hóp. Það er engin afsökun. Við ætluðum að gera mikið betur.

„Við tökum á hverri prófraun fyrir sig án þess að horfa á einhverjar afsakanir. Það er auðvelt að benda á eitt og annað eftir leik en við vorum ekki með alla okkar leikmenn og það voru menn hér að fá að reyna sig í fyrsta skipti sem er frábært og gefur þeim mikilvæga reynslu,“ sagði Sverre en það var í raun breiddin sem skildi á milli liðanna.

„Valsmenn eru með þéttan bekk og alla heila en við ekki. Þá er þetta erfitt. Þeir rúlla vel á hópnum á meðan mínir menn þreytast sem sást vel á þeim kafla þegar Valur gerir út um leikinn.“

Sverre Andreas Jakobsson þjálfari Akureyrar.Vísir/Ernir
Guðmundur Hólmar Helgason.Vísir/Ernir
Ingimundur Ingimundarson og félagar komust lítið áleiðis í kvöld.Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×