Enski boltinn

Milner hetjan í fjórða sigri Liverpool í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lærisveinar Jurgen Klopp eru á miklu flugi þessa stundina en Liverpool vann nauman 2-1 sigur á Swansea í hádegisleik enska boltans sem lauk rétt í þessu.

Liverpool var búið að vinna þrjá leiki í röð fyrir leik dagsins á meðan Swansea var aðeins búið að fá eitt stig í síðustu fimm leikjum.

Hollenski miðjumaðurinn Leroy Fer kom heimamönnum yfir á níundu mínútu er hann stýrði boltanum í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Leiddu heimamenn í hálfleik en Roberto Firminho jafnaði metin strax á 54. mínútu í síðari hálfleik er hann stýrði aukaspyrnu Jordan Henderson í netið.

James Milner kom Liverpool yfir átta mínútum fyrir leikslok af vítapunktinum eftir að brotið hafði verið á Firminho innan vítateigsins.

Miðvörðurinn Mike van der Hoorn fékk sannkallað dauðafæri til að jafna metin fyrir Swansea í uppbótartíma en skot hans af stuttu færi fór framhjá.

Lauk leiknum því með 2-1 sigri Liverpool og fögnuðu þeir rauðklæddu því fjórða sigrinum í röð en með sigrinum skaust Liverpool upp í annað sæti í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×