Körfubolti

Umfjöllun og myndir: Stjarnan - Njarðvík 72-74 | Sterkur sigur Njarðvíkinga

Kristinn Geir Friðriksson í Ásgarði skrifar
Njarðvík gerði góða ferð í Ásgarðinn í kvöld og lagði Stjörnuna í spennandi leik í Domino´s-deild karla í körfubolta, 74-72. Njarðvíkingar eru búnir að vinna tvo leiki í röð en Stjarnan búin að tapa tveimur leikjum í röð.

Lokamínúturnar voru svakalega spennandi en Björn Kristjánsson kom Njarðvík yfir, 73-72, með frábæru þriggja stiga skoti þegar 43 sekúndur voru eftir. Logi Gunnarsson skoraði úr vítaskoti og kom sínu liði í 74-72 en Stjarnan klúðraði síðustu sókninni sinni og Njarðvíkingar fögnuðu.

Leikurinn verður seint í minnum hafður fyrir góðan körfubolta; bæði lið áttu í miklum vandræðum í sínum sóknarleik og voru aðeins handfylli af leikmönnum sem spiluðu þá rullu af eðlilegri getu.

Leikurinn var mjög jafn og hvorugt liðið náði nægilega góðum áhlaupum til þess að slíta sig frá mótherjanum. Varnarleikur beggja liða var fastur og ágengur en aldrei komust liðin þó neinn sóknartakt.

Lokamínúturnar voru spennandi en það voru Njarðvikingar sem settu lykilskotin sín niður á meðan heimamenn fóru illa með upplögð tækifæri á lokamínútum leikins.

Hjá Njarðvík var Logi Gunnarsson bestur heilt yfir en Björn Kristjánsson átti flottan seinni hálfleik rétt eins og Myron Dempsey. Varnarleikur liðsins skóp sigurinn og kom heimamönnum oft úr jafnvægi.

Hjá Stjörnunni var Hlynur Bæringsson yfirburðarmaður með 24 stig og 18 fráköst. Anthony Odunsi átti spretti en liðsheildin náði aldrei neinum takti og ljóst að liðið saknaði mjög leikstjórnanda síns Justin Shouse, sem var meiddur.

vísir/eyþór
Myron Dempsey reynir að verja skot með tilþrifum.Vísir/Eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×