Fótbolti

Coentrao skaut Portúgal á topp I-riðils

Anton Ingi Leifsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. vísir/getty
Cristiano Ronaldo komst ekki á blað í 2-1 sigri Portúgals á Serbum í I-riðli undankeppni Evrópumótsins í Frakklandi 2016, en leikið var í Portúgal.

Það var enginn annar en Ricardo Carvalho sem kom Portúgölum á bragðið á tíundu mínútu með marki eftir hornspyrnu. Stuttu síðar þurfti þó Carvalho að fara af velli.

Staðan var 1-0 í hálfleik, en Nemanja Matic jafnaði metin fyrir Serba á 61. mínútu. Rangstöðufnykur var af markinu, en þó var ekkert dæmt og markið stóð.

Einungis tveimur mínútum síðar náðu Portúgalar aftur forystunni. Þar var að verki Fabio Coentrao eftir sendingu frá Joa Moutinho. Lokatölur 2-1.

Með sigrinum fer Portúgal á topp riðilsins, en þeir eru með níu stig eftir fjóra leiki. Serbar eru í veseni; einungis með eitt stig eftir fjóra leiki - en þrjú stig voru dregin af þeim vegna óláta á heimaleik liðsins á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×