Enski boltinn

Newcastle úr fallsæti eftir sigur á Pardew og lærisveinum hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Townsend skorar markið glæsilega sem tryggði Newcastle sigurinn.
Townsend skorar markið glæsilega sem tryggði Newcastle sigurinn. Vísir/Getty
Newcastle United komst í dag úr fallsæti í ensku úrvalsdeildinni eftir 1-0 sigur á Crystal Palace á heimavelli.

Andros Townsend skoraði eina mark leiksins með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu á 58. mínútu. Þetta var fjórða mark hans fyrir Newcastle síðan hann kom frá Tottenham í janúarglugganum.

Palace, sem tryggði sér sæti í bikarúrslitum um síðustu helgi, fékk upplagt færi til að jafna metin á 70. mínútu þegar Mike Dean dæmdi vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hönd Moussa Sissoko innan vítateigs.

Yohan Cabaye, fyrrum leikmaður Newcastle, fór á punktinn en Karl Darlow, þriðji markvörður Newcastle, varði spyrnu hans.

Newcastle er nú í 17. sæti með 33 stig, einu stigi á undan Sunderland og tveimur á undan Norwich, sem eru í næstu sætum fyrir neðan. Sunderland á þó einn leik til góða á Newcastle og Norwich tvo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×