Enski boltinn

Mkhitaryan hetjan í langþráðum heimasigri Man Utd | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Henrikh Mkhitaryan skoraði eina mark leiksins þegar Manchester United tók á móti Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fyrsti deildarsigur United á heimavelli frá 24. september.

United er enn í 6. sæti deildarinnar en nú með 24 stig. Tottenham er áfram með 27 stig í 5. sætinu.

United var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og átti hættulegri sóknir. Hugo Lloris var frábær í marki Tottenham líkt og David De Gea í marki United.

Mkhitaryan skoraði eina mark leiksins og sitt fyrsta deildarmark fyrir United á 29. mínútu. Harry Kane tapaði þá boltanum á miðjunni, Ander Herrera var fljótur að hugsa og stakk boltanum inn fyrir á Mkhitaryan sem þrumaði boltanum í þaknetið, óverjandi fyrir Lloris.

Tottenham sótti í sig veðrið í seinni hálfleik en fékk samt bara eitt dauðafæri. Það féll í skaut Victors Wanyama en slakur skalli hans hitti ekki markið. Christian Eriksen átti auk þess tvö góð skot sem De Gea varði vel.

Um miðjan seinni hálfleikinn átti Pogba skot beint úr aukaspyrnu sem small í samskeytunum. Skömmu síðar varði Lloris frá honum úr góðu færi.

Mkhitaryan var borinn af velli fimm mínútum fyrir leikslok eftir tæklingu Dannys Rose. Það breytti þó engu um úrslitin. Lokatölur 1-0, United í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×