Enski boltinn

United kláraði dæmið í fyrri hálfleik | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robin van Persie skorar fyrsta mark United.
Robin van Persie skorar fyrsta mark United. Vísir/Getty
Manchester United átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Leicester City að velli á Old Trafford í dag. Lokatölur 3-1, United í vil en Leicester vann fyrri leik liðanna 5-3.

Mörkin í leiknum má sjá hér að neðan

Robin van Persie kom United yfir á 27. mínútu með sínu níunda deildarmarki í vetur eftir sendingu frá landi sínum, Daley Blind, sem átti mjög góðan leik í liði United.

Falcao bætti öðru marki við fimm mínútum síðar og á 44. mínútu komst United í 3-0 þegar Wes Morgan skallaði boltann í eigið mark.

United-menn voru öllu rólegri í seinni hálfleik og Leicester náði að minnka muninn á 80. mínútu þegar Marcin Wasilewski skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf Marcs Albrighton.

Nær komust gestirnir ekki og United fagnaði sínum öðrum sigri í röð. Lærisveinar Louis van Gaal eru í 3. sæti deildarinnar með 43 stig, fjórum stigum á eftir nágrönnum sínum í Manchester City sem sitja í 2. sæti.

Leicester vermir botnsæti deildarinnar með aðeins 17 stig.

Man Utd 1-0 Leicester Man Utd 2-0 Leicester Man Utd 3-0 Leicester Man Utd 3-1 Leicester



Fleiri fréttir

Sjá meira


×