Fótbolti

Þrenna Agüero tryggði lygilegan sigur City á Bayern | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sergio Agüero skorar í kvöld.
Sergio Agüero skorar í kvöld. vísir/getty
Möguleikar Manchester City á sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu jukust til muna í kvöld er liðið vann ótrúlegan 3-2 sigur á Bayern München í kvöld.

Argentínumaðurinn Sergio Agüero var allt í öllu í liði City en hann skoraði öll mörk liðsins í kvöld, þar af tvö á síðustu fimm mínútum leiksins.

Hann kom City yfir með marki úr vítaspyrnu á 21. mínútu eftir að Mehdi Benatia, varnarmaður Bayern, braut á honum í teignum. Benatia fékk að líta rauða spjaldið og Agüero skoraði örugglega úr vítinu.

En þrátt fyrir að vera manni færri komst Bayern yfir áður en fyrri hálfleikur var allur. Xabi Alonso jafnaði með marki beint úr aukaspyrnu og Robert Lewandowski skoraði gott skallamark á 45. mínútu.

Agüero tók svo leikinn í sínar hendur með mörkunum tveimur undir lokin eins og sjá má hér fyrir neðan.

Bayern var fyrir leikinn öruggt með efsta sæti riðilsins en City er nú búið að jafna CSKA Moskvu og Roma að stigum. Öll þrjú lið eru með fimm stig fyrir lokaumferðina og getur City tryggt sér sæti í 16-liða úrslitunum með sigri á Roma á útivelli þann 10. desember, ef CSKA mistekst að vinna Bayern á sama tíma.

Mark Agüero úr vítaspyrnu og rauða spjaldið: Xabi Alonso jafnaði metin með marki beint úr aukaspyrnu: Robert Lewandowski kom Bayern yfir: Sergio Agüero jafnaði metin fyrir City á 85. mínútu: Dramatískt sigurmark Agüero í uppbótartíma:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×