Enski boltinn

Fjögur mörk og tvö rauð í áttunda sigri Chelsea í röð | Sjáðu mörkin

Eftir að hafa lent undir og verið undir allan fyrri hálfleikinn náði Chelsea að snúa leiknum sér í hag og vinna 3-1 sigur á Manchester City á Etihad-vellinum í hádegisleik enska boltans í dag.

Gary Cahill varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net undir lok fyrri hálfleiks eftir stanslausa sókn heimamanna og leiddi Manchester City 1-0 í hálfleik.

Kevin De Bruyne fékk færi til að bæta við marki í upphafi seinni hálfleiks en skot hans af meters færi fyrir opnu marki fór í slánna. Það átti eftir að kosta heimamenn því stuttu síðar jafnaði Chelsea metin.

Var þar að verki Diego Costa eftir góða sendingu Cesc Fabregas en stuttu síðar lagði hann upp mark fyrir Willian. Átti hann þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Manchester City og Willian afgreiddi boltann í fjærhornið.

Eden Hazard gerði endanlega út um leikinn undir lok venjulegs leiktíma er hann fékk sendingu inn fyrir vörnina frá Marcus Alonso og afgreiddi boltann framhjá Claudio Bravo.

Það sauð allt upp úr á lokamínútunum og fengu Sergio Aguero og Fernandinho báðir rautt spjald á einni mínútu. Aguero fyrir ljóta tæklingu og Fernandinho fyrir að ýta Fabregas upp í stúku þegar kýtingur átti sér stað eftir tæklinguna.

Sigurinn þýðir að Chelsea er komið með fjögurra stiga forskot á Liverpool og Manchester City á toppi deildarinnar en Liverpool á leik til góða gegn Bournemouth á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×