Sjóðandi heitur Salah kom að öllum fimm mörkum Liverpool

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mohamed Salah er búinn að vera sjóðheitur undanfarið og hélt uppteknum hætti í dag.
Mohamed Salah er búinn að vera sjóðheitur undanfarið og hélt uppteknum hætti í dag. vísir/getty
Mohamed Salah var algjörlega stórkostlegur þegar Liverpool skellti Watford, 5-0, í ensku úrvalsdeildinni í dag en leikið var í Liverpool. Salah skoraði fjögur og lagði upp eitt mark.

Veislan hjá Liverpool byrjaði strax eftir fjórar mínútur þegar fyrsta mark Salah leit dagsins ljós og skömmu fyrir hlé tvöfaldaði hann forystuna. 2-0 fyrir Liverpool í hálfleik.

Í byrjun síðari hálfleik lagði Salah upp smekklegt mark fyrir Roberto Firmino og á 77. mínútu fullkomnaði Salah þrennuna. Hann var ekki hættur því fimm mínútum fyrir leikslok bætti hann fjórða markinu við. Lokatölur 5-0 og var Salah stórkostlegur enn eina ferðina í rauða búningnum.

Salah hefur verið frábær á tímabilinu en hann er markahæsti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Hann er kominn með 28 mörk í deildinni og samtals 36 mörk í öllum keppnum á tímabilinu.

Liverpool er í þriðja sætinu með 63 stig en liðin í kring eiga þó leik til góða. Liverpool er tveimur stigum frá Manchester United. Watford er í ellefta sætinu með 36 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira