Enski boltinn

Gylfi skaut Swansea úr fallsæti á Anfield | Sjáðu mörkin

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Swansea sem vann óvæntan 3-2 sigur á Liverpool á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Eftir tíðindalítinn og markalausan fyrri hálfleik opnaðist fyrir flóðgáttir í seinni hálfleik. Llorente kom Swansea yfir strax á þriðju mínútu og fjórum mínútum síðar bætti hann við öðru marki með kraftmiklum skalla.

Þá var komið að Roberto Firmino en hann minnkaði muninn á tíundu mínútu seinni hálfleik og jafnaði metin með mjög laglegu marki á 69. mínútu.

Gylfi Þór skoraði sigurmarkið fimm mínútum eftir að Liverpool jafnaði með góðu skoti af stuttu færi eftir að Ragnar Klavan varnarmaður Liverpool átti misheppnaða sendingu í teignum.

Swansea er nú með 18 stig í 17. sæti deildarinnar og komið úr fallsæti tímabundið hið minnsta því liðin þrjú í fallstæta eiga öll leik til góða um helgina. Liverpool er enn í þriðja sæti með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×