Enski boltinn

Vardy með þrennu þegar meistararnir rúlluðu yfir Man City | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamie Vardy skoraði þrennu þegar Englandsmeistarar Leicester City tóku Manchester City í karphúsið í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Lokatölur 4-2, Refunum hans Claudios Ranieri í vil.

Leicester byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og eftir 20 mínútur var staðan orðin 3-0.

Vardy kom Refunum yfir strax á 3. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Andy King annað mark Leicester með góðu skoti.

Vardy skoraði svo sitt annað mark og þriðja mark Leicester á 20. mínútu eftir sendingu frá Riyad Mahrez. Ótrúleg byrjun hjá Englandsmeisturunum og lærisveinar Peps Guardiola vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Staðan var 3-0 í hálfleik. Man City spilaði betur í seinni hálfleik en Vardy gerði endanlega út um vonir gestanna þegar hann fullkomnaði þrennuna með skoti í stöng og inn úr þröngu færi á 78. mínútu.

Aleksandar Kolarov skoraði glæsilegt mark með skoti beint úr aukaspyrnu á 82. mínútu og átta mínútum síðar lagði Serbinn upp mark fyrir varamanninn Nolito. Lokatölur 4-2, Leicester í vil.

Með sigrinum komust meistararnir upp í 14. sæti deildarinnar.

Man City er enn í 4. sætinu en liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð með markatölunni 2-7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×