Enski boltinn

Leicester fann aftur 2015-16 gírinn og lék sér að Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy fagnar seinnamarki sínu.
Jamie Vardy fagnar seinnamarki sínu. Vísir/Getty
Leicester City átti ekki í miklum vandræðum með að vinna 3-1 sigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í kvöld í fyrsta leik liðsins eftir að ítalski stjórinn Claudio Ranieri var rekinn frá félaginu.

Þetta er fyrsti deildarsigur Leicester á árinu 2017 en liðið tapaði fimm síðustu deildarleikjum sínum undir stjórn Ranieri. Með þessum sigri komust Englandsmeistararnir upp úr fallsæti.

Craig Shakespeare tók við liðinu af Ranieri, stillti upp í 4-4-2 leikerfinu og Leicester City fann aftur 2015-16 gírinn sinn. Það var nánast frá fyrstu mínútu í hvað stefndi enda leikmenn leicester miklu grimmari í öllum aðgerðum sínum.

Liverpool var ekki búið að spila í sextán daga en leit allt eins út fyrir að hafa ekki spilað í sextán vikur. Úrslitin eru gríðarleg vonbrigði fyrir Liverpool sem hefði komist upp í þriðja sætið með sigri.

Jamie Vardy skoraði tvö markanna en þegar hann skoraði fyrsta mark Leicester í leiknum var Leicester ekki búið að skora í 638 mínútur á árinu 2017.

Jamie Vardy var búinn að vera nálægt því að skora þegar hann kom Leicester í 1-0 á 28. mínútu eftir frábæra stungusendingu frá Marc Albrighton.

Daniel Drinkwater bætti við frábæru marki ellefu mínútum síðar þegar hann tók boltann viðstöðulaust á lofti fyrir utan teig og skoraði með frábæru skoti.

Jamie Vardy gerði síðan út um leikinn þegar hann skallaði inn fyrirgjöf Christian Fuchs á 60. mínútu og kom Leicester í 3-0.

Philippe Coutinho minnkaði muninn í 3-1 átta mínútum síðar með laglegri afgreiðlu eftir að hafa fengið boltann frá Emre Can. Það besta við markið var að Coutinho fann loksins aftur markaskóna eftir að hafa verið án marks í ellefu leikjum í röð.

Liverpool leit aðeins betur út eftir markið en tókst ekki að minnka muninn enn frekar og setja smá spennu í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×