Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - FH 2-1 | Jugovic hetja Fjölnismanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik liðanna í dag.
Úr leik liðanna í dag. vísir/eyþór
Fjölnir fór langt með að bjarga sér frá falli úr Pepsi-deild karla með 2-1 sigri á FH í Grafarvoginum í dag. Fjölnismenn unnu því báða leikina gegn FH-ingum í sumar.

Fyrri hálfleikurinn var mjög tíðindalítill og hægur en það var meira varið í þann seinni.

Igor Jugovic kom Fjölni yfir með skemmtilegu skoti af 40 metra færi á 52. mínútu. Gunnar Nielsen, markvörður FH, kom þá út úr vítateignum til að hreinsa frá, spyrna hans var slök og beint á Jugovic sem lyfti boltanum yfir Færeyinginn og í netið.

FH-ingar vöknuðu til lífsins eftir þetta og Matija Dvornekovic jafnaði metin á 74. mínútu. Hann fylgdi þá eftir skoti Davíðs Þórs Viðarssonar sem Þórður Ingason varði.

Fjölnismenn sýndu meiri áræðni á lokakaflanum og það skilaði sér í sigurmarki. Jugovic var þá aftur á ferðinni og skoraði sitt annað mark. Lokatölur 2-1, Fjölni í vil.

Fjölnismenn eru núna fjórum stigum frá fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir. FH-ingar sitja enn í 3. sæti deildarinnar en þeir hefðu tryggt sér Evrópusæti með sigri í dag.

Af hverju vann Fjölnir?

Öfugt við síðustu ár virðast leikirnir á móti FH kalla það besta fram í Fjölni. Þeir voru mjög skipulagðir og gáfu fá færi á sér í leiknum í dag. Sóknir Fjölnismanna í fyrri hálfleik voru ekki margar en þær voru hættulegar.

FH-ingar voru á hælunum í byrjun seinni hálfleiks og það kom í bakið á þeim. Þeir sýndu smá viðbrögð við markinu og náðu að jafna metin. En í staðinn fyrir að fylgja því eftir koðnaði leikur FH aftur niður og þeir fengu annað mark á sig.

Þessir stóðu upp úr:

Jugovic var hetja Fjölnis í þessum leik. Króatinn hefur ekki átt jafn gott tímabil og í fyrra en hann sýndi hvers hann er megnugur í dag.

Mario Tadejevic átti skínandi góðan leik í stöðu vinstri bakvarðar og kornungt miðvarðapar Fjölnis stóð vaktina vel. Þá átti Birnir Snær Ingason góða spretti á vinstri kantinum.

Hvað gekk illa?

FH-ingar voru flatir og hægir í þessum leik. Það var enginn kraftur í sóknarleiknum og góðar sóknir voru teljandi á fingrum annarrar handar.

FH hefur átt óvenju marga slaka leiki í sumar og þetta var einn af þeim verstu.

Hvað gerist næst?

Fjölnismenn mæta vængbrotnum KR-ingum á sunnudaginn. Sigurinn í dag gefur þeim hellings andrými í fallbaráttunni og það þarf mikið að ganga á ef þeir eiga að falla.

FH-ingar fá annað tækifæri til að tryggja sér Evrópusæti þegar þeir fara í Ólafsvík og mæta Víkingum á sunnudaginn.

Maður leiksins: Igor Jugovic, Fjölnir

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan

Það voru átök í leiknum.vísir/eyþór
Ágúst: Þurfum eitt stig í viðbót

„Það var karakter í okkur í dag. Við börðumst frá fyrstu mínútu og við ætluðum okkur þrjú stig. Sem betur fer gekk það,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir 2-1 sigur hans manna á FH í dag.

„Við breyttum aðeins til í vörninni og spiluðum 4-1-4-1 og það gekk mjög vel. Ég var mjög ánægður með leikmennina. Þeir börðust, hlupu og vildu þetta.“

Hinir ungu og efnilegu Hans Viktor Guðmundsson og Torfi Tímóteus Gunnarsson stóðu fyrir sínu í miðri vörn Fjölnis. Ágúst var að vonum ánægður með þeirra frammistöðu.

„Þetta eru U-19 og U-21 árs landsliðsmenn. Þeir stóðu sig eins og herforingjar og eins þeir hefðu spilað í 10 ár. Þetta var frábær leikur á móti einum besta framherja landsins [Steven Lennon],“ sagði Ágúst.

Fjölnir er nú fjórum stigum frá fallsæti þegar tveimur umferðum er ólokið. En hvað þurfa Fjölnismenn mörg stig til viðbótar til að bjarga sér?

„Við þurfum eitt stig, hugsanlega þrjú,“ sagði Ágúst að endingu.

Heimir á hliðarlínunni í dag.vísir/eyþór
Heimir: Menn héldu að þeir gætu joggað um völlinn

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var langt frá því að vera sáttur með spilamennsku sinna manna í tapinu fyrir Fjölni í dag.

„Við vorum ekki tilbúnir að mæta þeim í baráttunni,“ sagði Heimir, aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis hjá FH í leiknum í dag.

Heimir var ekki sáttur með hvernig FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn.

„Það er langt síðan ég hef séð svona byrjun á seinni hálfleik hjá FH-liðinu. Menn héldu að þeir gætu joggað um völlinn. Það var ekkert tempó og ekkert að frétta og endaði með marki frá þeim,“ sagði Heimir.

„Eftir það vorum við að elta, náðum að jafna en holningin á liðinu var þannig að við vorum ekki að fara fá mikið út úr þessum leik. Við hefðum getað sloppið með jafntefli en ekki mikið meira en það.“

Með sigri í dag hefðu FH-ingar tryggt sér Evrópusæti. Þeir fá aðra tilraun til þess gegn Víkingum í Ólafsvík á sunnudaginn kemur.

„Það var möguleiki að klára þetta í dag og alvöru menn og alvöru lið fara sem fyrst í mark. Næst mætum við liði í fallbaráttu. Ef við ætlum að mæta þar eins og við gerðum í dag töpum við líka,“ sagði Heimir að lokum.

Jugovic með boltann.vísir/eyþór
Jugovic: Þetta var 100% sanngjarnt

Igor Jugovic var hetja Fjölnis þegar liðið lagði FH að velli, 2-1, í Pepsi-deild karla í kvöld. Sigurinn var afar mikilvægur fyrir Fjölnismenn sem eru núna fjórum stigum frá fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir.

„Þetta var sanngjarn sigur. Við skoruðum tvö mörk og áttum 3-4 góð færi til viðbótar. FH átti kannski tvö færi. Þetta var 100% sanngjarnt,“ sagði Jugovic.

Fyrra mark hans var afar fallegt en hann lyfti boltanum þá yfir Gunnar Nielsen, markvörð FH, af 40 metra færi.

„Við pressuðum og ég sá að markvörðurinn átti slæma spyrnu og var kominn út úr markinu. Ég hugsa mikið um þetta. Þegar leikurinn byrjar vil ég vippa yfir markvörðinn. Ég skýt kannski 10 sinnum á tímabili en þetta er í fyrsta sinn sem það heppnast. Þetta var nokkuð gott mark,“ sagði Jugovic sem skoraði sigurmark Fjölnis með öðru góðu skoti mínútu fyrir leikslok.

„Þetta var eini staðurinn þar sem ég gat sett boltann. Það var mikið af leikmönnum vinstra og ef ég hefði skotið þangað hefði boltinn farið í einhvern. Fyrir markvörðinn er þetta versti staðurinn,“ sagði Jugovic að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira