Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - Haukar 20-33 | Svart kvöld í handboltasögu FH

Henry Birgir Gunnarsson í Kaplakrika skrifar
Jón Þorbjörn
Jón Þorbjörn vísir/pjetur
Það var eins gott að það var frítt í Krikann í kvöld því handboltinn sem FH bauð upp á var ekki krónu virði. Þeir voru niðurlægðir af erkifjendum sínum í Haukum sem hefðu getað flengt þá enn fastar ef þeir hefðu einfaldlega nennt því.

Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Kaplakrika í kvöld og tók myndirnar sem fylgja umfjölluninni.

Fyrri hálfleikurinn í kvöld er einn sá ótrúlegasti sem ég hef séð. FH-ingar mættu nokkuð vængbrotnir til leiks en það afsakar engan veginn það handboltalega gjaldþrot sem liðið bauð upp á.

Haukarnir keyrðu yfir þá strax frá fyrstu mínútu og FH-ingar nenntu ekki að veita þeim nokkurt viðnám. Þeir skoruðu að vild og höfðu nákvæmlega ekkert fyrir því.

Sóknarleikur FH var svo lélegur að hann kallaði eiginlega á fangelsisvist á þá leikmenn sem mættu í sókn. Skotin glórulaus og illa ígrunduð, sóknarleikurinn tilviljanakenndur og viljinn enginn. Þetta var bara glórulaust og FH-ingar áttu að skammast sín fyrir þennan leik og þetta andleysi.

Það var verið að keyra yfir FH og þeim virtist vera skítsama. Afsakið orðbragðið. Haukar komust í 1-12 og annað mark FH kom ekki fyrr en eftir 17 mínútna leik.

Mestur var munurinn 13 mörk, 2-15 eftir 23 mínútur, og þá var Giedrius með yfir 80 prósent markvörslu og skotnýting Hauka sömuleiðis.

Jóhann Birgir Ingvarsson sækir að vörn Hauka.vísir/pjetur
FH-ingar rönkuðu aðeins við sér undir lokin og munurinn 11 mörk i hálfleik, 7-18. Ótrúlegur hálfleikur hjá þessum erkifjendum þar sem spennan er venjulega í hámarki.

Það var engu líkara en Haukamenn hefðu farið heim í hálfleik því þeir virtust ekki nenna að spila seinni hálfleikinn. FH-ingar sýndu að það er stolt í liðinu því þeir börðust af alefli. Hefðu reyndar að ósekju mátt gera það í fyrri hálfleik líka.

Í stöðunni 14-21 leist Patreki, þjálfara Hauka, ekki á blikuna og tók leikhlé. Veitti ekki af. Þurfti helst að henda vatni í andlitið á hans mönnum og minna á að þeir yrðu að gefa meira en 2 prósent í síðari hálfleikinn.

Það leikhlé skilaði sínu því hans menn tóku við sér og hófu að spila handbolta á nýjan leik. Um leið jókst munurinn aftur og sú litla von sem var komin í FH-liðið hvarf.

Giedrus magnaður í marki Hauka og ef hann hefði spilað meira þá hefðu Haukar unnið stærra. Einar fann sig engan veginn. Annars var liðsheildin mögnuð hjá Haukum og erfitt að tína aðra úr.

Magnús Óli var sá sem sýndi mest stolt í liði FH í kvöld. Jóhann Birgir beit líka frá sér þó lítið hefði gengið upp hjá honum. Frammistaða flestra annarra var einfaldlega skammarleg.

Halldór Jóhann Sigfússon horfði upp á afhroð sinna manna.vísir/pjetur
Halldór: Þetta var óafsakanlegt

„Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að útskýra þetta," sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, þegar hann var beðinn um að útskýra hrunið hjá hans mönnum í kvöld.

„Þetta var lélegt í alla staði. Við mættum ekki til leiks á meðan Haukarnir voru mjög góðir. Það var eins og það væru auka tíu kíló á hverjum manni hjá mér. Við sáum aldrei til sólar í dag."

Eins og við mátti búast var Halldór mjög daufur í dálkinn og eflaust í léttu losti eftir þennan leik.

„Ég vil ekki afsaka þetta því þetta var óafsakanlegt. Við eigum að geta mikið betur. Ég ætlast til meiru af mínu liði og ég tala nú ekki um í svona bæjarslag.  Við vorum andlega og líkamlega fjarverandi í þessum leik."

Halldór segist hafa lent í ýmsu á sínum ferli en sagði að þetta tap væri eitt það sárasta og lélegasta sem hann hefði lent í.  Hann sagðist samt ekki hafa skammast sín er hann horfði upp á niðurlæginguna í fyrri hálfleik.

„Ég skammast mín aldrei fyrir strákana en það var vissulega erfitt að horfa upp á þetta. Við reyndum allt sem við gátum en það breyttist ekki neitt."

Það vantaði marga í lið FH í kvöld og því var Halldór sjálfur í búningi. Hann sagði þó aldrei hafa komið til greina að hann spilað og Halldór bjóst heldur ekki við því að vera aftur á skýrslu.

Patti var sáttari þjálfarinn í kvöld.vísir/pjetur
Patrekur: Vorum mjög góðir

„Ef maður tekur mið af leikjum okkar við FH í vetur þá var þetta ekki beint niðurstaða sem maður átti von á," sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, eftir stórsigurinn á FH í kvöld.

„Við spiluðum mjög góðan varnarleik og náðum að leysa mjög vel þegar Ásbjörn var vinstra megin. Við stóðum mjög þéttir og náðum að refsa þeim. Þetta var mjög góður leikur í dag."

Patrekur vildi sem minnst tala um FH-liðið. Líklega kennt í brjósti um þá eftir þessa frammistöðu sem þeir buðu upp á.

„Ég horfi bara á mitt lið. Við vorum að vinna okkar vinnu mjög vel. Hver svo sem ástæðan er fyrir þessari spilamennsku FH í kvöld er höfuðverkur annarra," sagði þjálfarinn en hann var einnig ánægður með hversu vel honum gekk að rúlla á liðinu. Staða leiksins bauð upp á að allir gátu spilað og menn ættu að vera ferskir eftir leikinn.

Haukarnir þurftu á stigunum að halda í kvöld enda gengi liðsins framan af móti valdið vonbrigðum.

„Við viðurkennum alveg að við spiluðum ekki nógu vel fyrir áramót hver svo sem ástæðan var fyrir því. Við vitum vel að við getum spilað góðan handbolta og ætlum okkar ofar í töfluna. Mér finnst alltaf gaman að vinna handboltaleiki. Alveg sama á móti hverjum og hvernig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×