Fótbolti

Manchester City missti niður 2-0 forystu í Moskvu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússarnir fagna hér jöfnunarmarkinu sínu.
Rússarnir fagna hér jöfnunarmarkinu sínu. Vísir/AFP
Englandsmeistarar Manchester City tapaði dýrmætum stigum í Meistaradeildinni í fótbolta í Moskvu í dag þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við heimamenn í CSKA Moskvu í kuldanum í Rússlandi.

Manchester City var í mjög góðum málum í hálfleik eftir að Sergio Agüero og James Milner komu liðinu í 2-0 í fyrri hálfleiknum. Það stefndi því í öruggan útisigur en annað kom á daginn.

Varamaðurinn Seydou Doumbia var örlagavaldur City-liðsins því hann var maðurinn á bak við bæði mörk rússneska liðsins í seinni hálfleiknum en þau komu bæði á síðustu 26 mínútunum.

Seydou Doumbia skoraði fyrra markið sjálfur á 64. mínútu laglegt spil og fiskaði síðan vítaspyrnu á 86. mínútu sem Bibras Natkho nýtti og jafnaði metin í 2-2.

Sergio Agüero kom Manchester City í 1-0 á 29. mínútu eftir óeigingjarna stoðsendingu frá Edin Dzeko og Agüero lagði síðan upp mark fyrir James Milner á 38. mínútu.

Manchester City hefur nú 4 stig eftir þrjá fyrstu leiki sína eða jafnmörg stig og Roma. Ítalska liðið er með fjögurra marka forskot á City auk þess að eiga inni heimaleik á móti toppliði Bayern München í Rómarborg í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×