Enski boltinn

Borini tryggði Sunderland stigin þrjú á Stamford Bridge

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eto'o skoraði fyrsta mark leiksins
Eto'o skoraði fyrsta mark leiksins Vísir/Getty
Sunderland varð í dag fyrsta liðið til þess að sigra Chelsea undir stjórn Jose Mourinho á Stamford Bridge. Jose Mourinho hafði ekki tapað í sínum 77 leikjum á heimavelli sem stjóri Chelsea.

Samuel Eto'o kom Chelsea verðskuldað yfir með marki af stuttu færi úr hornspyrnu á tólftu mínútu en gestirnir voru ekki lengi að svara. Connor Wickham skoraði sitt þriðja mark í vikunni aðeins fimm mínútum síðar þear Mark Schwarzer náði ekki að halda skoti Marcos Alonso og Wickham var mættur til að sópa boltanum yfir línuna.

Ramires var stálheppinn að fá ekki rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks er hann virtist slá Sebastian Larsson, leikmann Sunderland. Larsson nartaði í hæla Ramires sem sló til baka beint fyrir framan Mike Dean, dómara leiksins. Fróðlegt verður að sjá framhaldið en Ramires gæti átt von á því að verða dæmdur í bann af enska knattspyrnusambandinu.

Í seinni hálfleik var leikurinn algjör einstefna af hálfu Chelsea. Það var hinsvegar Sunderland sem náði forskotinu þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Þar var að verki fyrrum leikmaður Chelsea og núverandi leikmaður Liverpool sem er á láni hjá Sunderland, Fabio Borini af vítapunktinum.

Þrátt fyrir gríðarlegan sóknarþunga á síðustu mínútum leiksins náðu leikmenn Chelsea ekki að koma inn marki og lauk leiknum því með 2-1 sigri Sunderland. Ómetanlegur sigur hjá Sunderland sem eygir von í baráttunni um að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa nælt í fjögur stig á Etihad Stadium og Stamford Bridge í sömu vikunni. Ekki amaleg uppskera þar.

Chelsea situr í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir leikinn, tveimur stigum á eftir Liverpool í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar þrír leikir eru eftir. Það verður sannkallaður stórleikur næstu helgi þegar Liverpool tekur á móti Chelsea á Anfield. Næsta verkefni hjá Chelsea er hinsvegar leikur gegn Atletico Madrid í Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á þriðjudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×