Íslenski boltinn

Celtic fór létt með KR í Skotlandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Celtic-menn voru miklu betri.
Celtic-menn voru miklu betri. vísir/arnþór
Íslandsmeistarar KR eru úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir tap gegn Celtic í Edinborg í kvöld, 4-0.

Celtic vann fyrri leikinn, 1-0, og einvígið samanlagt, 5-0. KR átti aldrei möguleika gegn Skotlandsmeisturunum í kvöld sem voru betri á öllum sviðum fótboltans.

Hollenski varnarmaðurinn Virgil van Dijk skoraði fyrstu tvö mörkin á 13. og 20. mínútu leiksins, bæði eftir hornspyrnur.

Finnski framherjinn Teemu Pukki bætti við þriðja markinu á 27. mínútu og því fjórða á 71. mínútu, en KR-ingar komust vart yfir miðju í fyrri hálfleik. Celtic spilaði mjög vel og hreinlega keyrði yfir Íslandsmeistarana sem stóðu sig þó betur í seinni hálfleik.

Kjartan Henry Finnbogason, framherji KR, fór úr axlarlið í fyrri hálfleik. Honum var kippt í lið og kláraði Kjartan leikinn.

Celtic mætir annaðhvort Legia Varsjá frá Póllandi eða St. Patrick's Athletic frá Írlandi í 3. umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×