Fótbolti

Öruggur sigur Hollands í leiknum um bronsið | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hollendingar höfðu ástæðu til að gleðjast í kvöld.
Hollendingar höfðu ástæðu til að gleðjast í kvöld. Vísir/Getty
Holland tryggði sér bronsverðlaun á HM í fótbolta með 3-0 sigri á Brasilíu í leiknum um þriðja sætið í Brasilíuborg í kvöld. Robin van Persie, Daley Blind og Georginio Wijnaldum skoruðu mörk Hollendinga.

Hollendingar, sem tefldu fram nánast óbreyttu liði frá undanúrslitaleiknum gegn Argentínu á miðvikudaginn, tóku forystuna á strax á þriðju mínútu þegar van Persie skoraði úr vítaspyrnu.

Alsírski dómarinn, Djamel Haimoudi, blés í flautu sína og benti á vítapunktinn eftir að hafa metið það sem svo að Thiago Silva, fyrirliði Brasilíu, hefði togað Arjen Robben niður innan vítateigs. Silva slapp hins vegar með gult spjald.

Hollendingar bættu svo við marki á 17. mínútu þegar Blind þrumaði boltanum í markið eftir mistök miðvarðarins Davids Luiz sem átti erfitt uppdráttar í kvöld líkt og í 7-1 tapinu gegn Þýskalandi í undanúrslitunum.

Brasilíumenn voru meira með boltann það sem eftir lifði leiks, en mörkin létu á sér standa. Það var helst Oscar, leikmaður Chelsea, sem ógnaði hollensku vörninni að einhverju viti. Hann fékk hins vegar litla hjálp frá samherjum sínum.

Wijnaldum bætti svo þriðja marki Hollands við í uppbótartíma eftir fyrirgjöf varamannsins Daryls Janmaat. Lokatölur 3-0, Hollendingum í vil sem unnu til sinna fyrstu bronsverðlauna á HM.

Louis van Gaal fékk góða kveðjugjöf í sínum síðasta leik sem stjóri hollenska landsliðsins, en tekur sem kunnugt er við sem þjálfari Manchester United eftir HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×