Fótbolti

Messi sló markametið í sigri Barcelona

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna markametinu
Leikmenn Barcelona fagna markametinu vísir/getty
Lionel Messi er markahæsti leikmaður spænsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi en hann skoraði þrjú af fimm mörkum Barelona í 5-1 sigri á Sevilla í kvöld.

Þegar Messi skoraði fyrsta mark leiksins á 21. mínútu jafnaði hann markamet Telmo Zarra sem skoraði 251 mark í 277 leikjum fyrir Athletic Bilbao á árunum 1940 til 1955.

Fyrri hálfleikur var tilþrifalítill og staðan í hálfleik 1-0 en seinni hálfleikur var vægast sagt hressilegur.

Jordi Alba varð fyrir því óláni að jafna metin með sjálfsmarki strax á annarri mínútu hálfleiksins og tveimur mínútum síðar hafði Neymar komið Barcelona yfir á ný.

Ivan Rakitic fyrrum leikmaður Sevilla jók forystuna í 3-1 á 65. mínútu en þá var komið að Messi að slá markametið og það með stæl.

Messi skoraði mark númer 252 í deildinni fyrir Barcelona átján mínútum fyrir leikslok og sex mínútum síðar bætti hann öðru marki við og fullkomnaði þrennuna.

Frábær sigur hjá Barcelona sem lyfti sér upp í annað sætið með sigrinum en liðið er tveimur stigum á eftir Real Madrid.

Sevilla er í fimmta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Barcelona þó liðið hafi litið illa út í kvöld. Sevilla átti ekki skot á markið í öllum leiknum fyrir utan þegar Alba sendi boltann í eigið net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×