Fótbolti

Vietto bjargaði stigi fyrir Atletico Madrid

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Benzema kom Real Madrid yfir í upphafi leiks.
Benzema kom Real Madrid yfir í upphafi leiks. vísir/getty
Luciano Vietto bjargaði stigi fyrir Atletico Madrid í 1-1 jafntefli gegn erkifjendunum í Real Madrid í spænsku úrvalsdeildininni í kvöld. Benzema kom Real Madrid yfir í upphafi leiks en Vietto jafnaði metin sjö mínútum fyrir leikslok.

Lærisveinar Rafa Benitez fengu góða byrjun í leiknum en Karim Benzema kom Real Madrid yfir með skalla af stuttu færi á 9. mínútu leiksins.

Heimamenn í Atletico Madrid fengu tækifæri til að jafna metin af vítapunktinum á 22. mínútu en Antonio Griezmann lét Keylor Navas verja frá sér og leiddi Real Madrid í hálfleik.

Í seinni hálfleik færðu leikmenn Atletico Madrid sig framar á völlinn og náðu að jafna metin tæplega tíu mínútum fyrir leikslok.

Griezmann reyndi þá að stýra boltanum í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf Jackson Martínez en skot hans fór beint fyrir fætur Vietto sem setti boltann í autt netið af stuttu færi.

Heimamenn voru líklegri til að bæta við marki heldur en Real Madrid en Keylor Navas þurfti að hafa sig allan við að verja skot frá Jackson Martinez í uppbótartíma.

Liðunum tókst ekki að bæta við marki og skyldu þau því jöfn. Real Madrid skaust upp í 2. sæti með 15 stig með jafnteflinu en Atletico Madrid er í 5. sæti með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×