Enski boltinn

Arsenal valtaði yfir bitlaust lið Aston Villa | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Arsenal fagna marki Olivers Giroud.
Leikmenn Arsenal fagna marki Olivers Giroud. Vísir/Getty
Arsenal rúllaði yfir Aston Villa í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Oliver Giroud, Mesut Özil, Theo Walcott, Santi Cazorla og Hector Bellerín skoruðu eitt mark hver í 5-0 sigri.

Giroud opnaði markareikninginn á 8. mínútu þegar hann skoraði sitt sjöunda deildarmark í vetur eftir frábæra stungusendingu frá Özil.

Giroud endurgalt Özil greiðann á 56. mínútu þegar hann sendi Þjóðverjann í gegnum fáliðaða vörn Aston Villa. Özil urðu ekki á nein mistök og skoraði framhjá Brad Guzan í marki gestanna.

Sjö mínútum síðar skoraði Theo Walcott þriðja markið eftir sendingu frá Cazorla sem skoraði svo fjórða markið úr vítaspyrnu á 75. mínútu. Hinn 19 ára gamli Chuba Akpom fiskaði vítið en hann kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik.

Bellerín fullkomnaði svo sigurinn þegar hann skoraði fimmta markið í uppbótartíma.

Þetta var þriðji sigur Arsenal í röð en liðið er með 42 stig í 5. sæti, jafnmörg stig og Southampton sem situr í 4. sætinu. Dýrlingarnir eiga hins vegar leik inni gegn Swansea seinna í dag.

Aston Villa er hins vegar á hinum enda töflunnar en liðinu hefur gengið skelfilega á undanförnum vikum eftir ágætis byrjun á tímabilinu. Villa hefur ekki skorað í sex leikjum í röð en síðast skoraði liðið gegn Manchester United 20. desember.

Arsenal 1-0 Aston Villa Arsenal 2-0 Aston Villa Arsenal 3-0 Aston Villa Arsenal 4-0 Aston Villa Arsenal 5-0 Aston Villa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×