Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - FH 29-33 | FH komið með þriggja stiga forskot

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var öflugur í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var öflugur í kvöld. vísir/eyþór
FH gerði góða ferð í Mosfellsbæinn og vann sigur á Aftureldingu, 29-33, í 13. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Með sigrinum náði FH aftur þriggja stiga forskoti á toppi deildarinnar. Afturelding er áfram í 7. sætinu.

Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Sóknarleikurinn var vel útfærður hjá báðum liðum en varnarleikur þeirra hefur oft verið sterkari.

FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur og voru með góð tök á leiknum allt þar til um 10 mínútur voru eftir. Þá skoruðu Mosfellingar þrjú mörk í röð og jöfnuðu í 27-27.

FH var svo sterkari aðilinn á lokasprettinum, vann síðustu sjö mínúturnar 6-2 og leikinn 29-33.

Af hverju vann FH?

FH spilaði góðan sóknarleik nær allan tímann. Það kom því ekki að sök að hraðaupphlaupin voru færri en oft áður.

FH-ingar voru ekki sjálfum sér líkir í vörninni í fyrri hálfleik en skrúfuðu fyrir lekann í þeim seinni og héldu aftur af Mosfellingum, fyrir utan Elvar Ásgeirsson sem skoraði átta mörk í seinni hálfleik og 11 í heildina.

Markvarslan var ekkert sérstök hjá FH en Ágúst Elí Björgvinsson steig upp undir lokin og varði mikilvæg skot.

Hverjir stóðu upp úr?

Elvar var besti maður vallarins; skoraði 11 mörk og var með frábæra skotnýtingu. Án hans hefði Afturelding ekki séð til sólar í seinni hálfleik. Einar Ingi Hrafnsson var einnig góður í fyrri hálfleik og skoraði þá fjögur mörk.

Liðsheildin var þéttari hjá FH. Útilínan (Gísli Þorgeir Kristjánsson, Einar Rafn Eiðsson og Ásbjörn Friðriksson) var öflug og skilaði samtals 20 mörkum og urmul stoðsendinga. Jóhann Karl Reynisson var góður á línunni í fyrri hálfleik og Ágúst Birgisson tók við keflinu í þeim seinni.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur liðanna var ekki merkilegur í fyrri hálfleik og markvarslan eftir því.

Í seinni hálfleik hökti sóknarleikur Aftureldingar sem þurfti að treysta mikið á Elvar. Hann gerði sitt og gott betur en það vantaði framlag frá fleiri leikmönnum. Skytturnar Ernir Hrafn Arnarson og Mikk Pinnonen áttu ekki góðan dag. Sá fyrrnefndi horfði ekki markið allan leikinn á meðan sá síðarnefndi tók mikið af slökum skotum.

Mosfellingar voru duglegir að finna Einar Inga inni á línunni í fyrri hálfleik en gekk ekkert í þeim efnum í seinni hálfleiknum.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leiki í Coca Cola-bikarnum á fimmtudaginn. Afturelding sækir Fram heim á meðan FH fer í Digranesið og mætir B-deildarliði HK.

Á sunnudaginn og mánudaginn leika liðin svo sína síðustu leiki fyrir EM-hléið. Afturelding mætir Stjörnunni í Garðabænum á sunnudaginn. Á mánudaginn tekur FH svo á móti Haukum í Hafnarfjarðarslagnum.

Mosfellingar fagna í kvöld en fögnuðu ekki í leikslok.vísir/eyþór
Einar Andri: Vorum slakir í seinni hálfleik

„Við tókum lélegar ákvarðanir í sókninni og fengum svo brottvísun á versta tíma. Ég myndi segja að það hefði klárað leikinn,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir tapið fyrir FH í kvöld.

Mosfellingar náðu að jafna metin, 27-27, þegar skammt var til leiksloka en gáfu eftir á ögurstundu og FH-ingar sigldu fram úr.

Þrátt fyrir tapið sá Einar Andri ýmislegt jákvætt við frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Stuttu eftir leikinn er maður svekktur en svo skoðar maður hann. Það var margt jákvætt. Við skoruðum 29 mörk og hefðum átt að skora fleiri,“ sagði Einar Andri.

Þjálfarinn var afar ósáttur við hvernig Mosfellingar byrjuðu seinni hálfleikinn.

„Við byrjuðum ekki seinni hálfleikinn. Við komum inn í hann á hælunum. Við vorum slakir í seinni hálfleik,“ sagði Einar Andri að endingu.

Það var ekkert gefið eftir í kvöld.vísir/eyþór
Halldór: Sóknarleikurinn gekk smurt í 60 mínútur

Halldór Sigfússon, þjálfari FH, var að vonum ánægður með sigurinn á Aftureldingu í kvöld. FH-ingar voru í vandræðum í vörninni í fyrri hálfleik en hún var skömminni skárri í þeim seinni.

„Varnarleikurinn var mun betri í seinni hálfleik en í þeim fyrri, þótt hann hafi ekki verið neitt til útflutnings. Markvarslan var líka daprari en hún hefur verið. En þeir tóku mikilvæga bolta sem hjálpuðu okkur að klára leikinn,“ sagði Halldór.

„Þetta var erfiður leikur. Afturelding gerði vel því að þrýsta okkur niður en við spiluðum betri vörn í seinni hálfleik.“

Þótt vörn FH hafi oft verið betri gekk sóknin glimrandi vel.

„Sóknarleikurinn gekk smurt í 60 mínútur. Við skoruðum 33 mörk en fengum ekki mörg úr hraðaupphlaupum. Þó eitt og eitt. Sóknin var mjög góð fyrir utan nokkrar ákvarðanatökur,“ sagði Halldór sem spilaði nánast á sama liðinu allan tímann í kvöld.

Aðspurður hvort það hafi verið vegna rúmlega viku frís sem FH-ingar fengu fyrir leikinn sagði hann:

„Sóknin gekk þetta smurt. Við unnum það virkilega vel. Báðir línumennirnir okkar [Jóhann Karl Reynisson og Ágúst Birgisson] eru búnir að vera meiddir. Þeir eru ekki komnir í sitt besta stand, þannig að það hefur mætt mikið á Ísaki [Rafnssyni] í vörninni,“ sagði Halldór.

„Mér fannst flæðið og jafnvægið í liðinu gott og stundum er það þannig.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira