Fótbolti

Napoli slátraði AC Milan á San Siro | Öll úrslit dagsins

Lorenzo Insigne fagnar marki á San Siro.
Lorenzo Insigne fagnar marki á San Siro. vísir/getty
Napoli einfaldlega valtaði yfir AC Milan á San Siro í kvöld en leiknum lauk með 4-0 sigri Napoli en með sigrinum skaust Napoli upp í 6. sæti.

Napoli hefur nú ekki tapað leik í ítölsku deildinni frá óvæntu tapi gegn Sassuolo í fyrstu umferð.

Gestirnir komust yfir á 13. mínútu en þar var að verki Allan eftir undirbúning Lorenzo Insigne. Isigne komst sjálfur á blað með tveimur mörkum í seinni hálfleik en Rodrigo Ely, varnarmaður AC Milan, gerði út um leikinn er hann sendi boltann í eigið net á 77. mínútu.

Var þetta annað tap AC Milan í röð en félagið er í 11. sæti með 9 stig eftir 7 leiki.

Juventus lenti í töluverðum vandræðum gegn botnliði Bologna en Anthony Mounier kom Bologna yfir á Juventus Stadium á 5. mínútu.

Alvaro Moratá jafnaði metin fyrir Juventus um miðbik seinni hálfleiks en leikmenn Juventus voru með mikla yfirburði í seinni hálfleik.

Pablo Dybala kom Juventus yfir af vítapunktinum á 53. mínútu og bætti Sami Khedira við þriðja marki Juventus og gerði út um leikinn á 63. mínútu.

Var þetta fyrsta mark hans í herbúðum Juventus eftir að hafa gengið til liðs við ítölsku meistarana frá Real Madrid í sumar.

Þá náði Inter aðeins jafntefli gegn Sampdoria á útivelli, Roma vann 4-2 sigur á Palermo á útivelli og Fiorentina vann 3-0 sigur á Atalanta á heimavelli en öll úrslit dagsins má sjá hér fyrir neðan.

Öll úrslit dagsins:

Empoli 1-0 Sassuolo

Palermo 2-4 AS Roma

Sampdoria 1-1 Inter

Udinese 1-1 Genoa

Juventus 3-1 Bologna

Lazio 2-0 Frosinone

AC Milan 0-4 Napoli

Fiorentina 3-0 Atalanta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×