Senegal fékk mörkin sín á silfurfati en átti sigurinn skilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
M'Baye Niang fagnar seinna marki Senegal í dag.
M'Baye Niang fagnar seinna marki Senegal í dag. Vísir/Getty
Pólverjar byrjðu ekki vel á HM í fótbolta í Rússlandi en þeir töpuðu 2-1 á móti Senegal í sínum fyrsta leik í dag.

Pólverjar skoruðu sjálfir fyrra markið í eigið mark og lögðu síðan upp það síðara með skelfilegum varnarmistökum. Þetta var alls ekki þeirra dagur.

Pólska liðið minnkaði muninn í lokin en markið kom of seint. Senegalar héldu út og eru fyrsta Afríkuþjóðin til að vinna leik á þessu heimsmeistaramóti.

Pólska liðið bauð upp á bullandi sóknarleik í undankeppninni þar sem liðið skoraði 28 mörk í 10 leikjum en það var ekki sama lið sem mætti til leiks í lag.

Pólverjar voru ragir og alltaf varkárir í sínu leikskipulagi. Lítið gerðist í leiknum framan af en Senegalar voru þó að reyna og uppskáru mark rétt fyrir hálfleik. Þeir bættu síðan við marki í seinni hálfleiknum og lönduðu mikilvægum sigri.

Senegal var síðasta á HM fyrir sextán árum og þá unnu þeir óvæntan 1-0 sigur á ríkjandi heimsmeisturum Frakka. Þeir leggja það því í vana sinn að byrja vel þegar mæta á heimsmeistaramótið.

Fyrra mark Senegal var sjálfsmark pólska varnarmannsins Thiago Cionek á 38. mínútu eftir að skot Idrissa Gueye fór af honum, breytti um stefnu og lak í markið.

Seinna mark Senegal skoraði M'Baye Niang á 60. mínútu þegar hann nýtti sér skelfileg varnarmistök. Pólverjinn Grzegorz Krychowiak ætlaði að senda boltann aftur á Wojciech Szczesny en M'Baye Niang stal sendingunni og skoraði í tómt markið.

Grzegorz Krychowia minnkaði muninn með skalla eftir aukaspyrnu á 86. mínútu. Markið kom hinsvegar alltof seint og Pólverjar náðu ekki að stela stigið á lokamínútunum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira