Lífið

Í Balmain pilsi í höllinni

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Anne-Marie Grikklandsdrottning, Friðrik krónprins og Dorrit Moussaieff sitja hér saman til borðs í Kristjánsborgarhöll. Krónprinsinn er hér í miðri ræðu.
Anne-Marie Grikklandsdrottning, Friðrik krónprins og Dorrit Moussaieff sitja hér saman til borðs í Kristjánsborgarhöll. Krónprinsinn er hér í miðri ræðu. vísir/getty
Dorrit Moussaieff forsetafrú var svo sannarlega glæsileg í sjötíu og fimm ára afmæli Margrétar Þórhildar Danadrottningar í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn.

Dorrit er þekkt fyrir smekklegan klæðaburð og var svo sannarlega engin undantekning á því í afmæli drottningarinnar.

Samkvæmt heimildum frá skrifstofu forseta Íslands rekur ljósbleika pilsið uppruna sinn til franska tískuhússins Pierre Balmain og við pilsið klæddist Dorrit útsaumuðum topp.

Yfir axlirnar bar forsetafrúin blómaskreytt sjal sem keypt var á markaði á Indlandi. Skartgripirnir voru ekki af verri endanum en eyrnalokkarnir og hálsmenið, sem skreytt eru dökkgrænum og hvítum demantssteinum, koma frá skartgripamerkinu Moussaieff. Skartgripamerkið er í eigu fjölskyldu Dorritar og reka þau verslanir í London, Hong Kong, Genf og Frakklandi.

Mikið var um dýrðir í afmælinu sem fór fram í Kristjánsborgarhöll og sat Dorrit í einu besta sætinu við hlið danska krónprinsins Friðriks, en gaf honum ekkert eftir í glæsileika er hann flutti ræðu til heiðurs móður sinnar á þremur tungumálum. Fjöldi kóngafólks og þjóðarleiðtoga var viðstaddur afmælið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×