Erlent

Óvæntur gestur í garðinum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Bandarískri konu brá heldur betur í brún á dögunum þegar hún lenti í augliti til auglitis við stóran svartbjörn í garðinum sínum. Teliece Sander var í sólbaði við hús sitt í Flórída og í leik í símanum þegar hún varð vör við eitthvað í garðinum hjá sér.

Þegar hún leit upp stóð svartbjörn fyrir framan hana.

Sander segir að hún hafi frosið en í stað þess að hlaupa inn eða hreyfa sig tók hún mynd af birninum og sendi hana til fullorðins sonar hennar sem var inn í húsinu. Með myndinni skrifaði hún: „hjálpaðu mér“.

Sonur hennar hélt að hún væri að grínast þar til hún sendi önnur skilaboð til hans og bað hann um að hafa hljótt.

Eftir að hún sendi skilaboðin tók hún myndband af birninum þar sem hann ráfaði í kringum hana og nálgaðist hana mjög. Björninn fór það nálægt henni að hún fann andardráttinn frá honum.

Í samtali við Sky News segir Sander að hún hafi frosið að hræðslu og hafi haldið andanum að mestu. Hún hafi ekki þorað að hreyfa sig.

Þegar sonurinn kom út fór björninn þó. Myndbandið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×