Erlent

Hylltur sem hetja eftir frækilega björgun barns

Samúel Karl Ólason skrifar
Gassama náði til drengsins á einungis nokkrum sekúndum.
Gassama náði til drengsins á einungis nokkrum sekúndum.
Frakkar hylla ungan mann frá Malí sem hetju eftir að hann bjargaði barni í París á laugardaginn. Vitni segja að hinn 22 ára gamli Mamoudou Gassama hafi ekki hikað við að setja eigið líf í hættu og klifra upp hlið húss svo hann gæti bjargað fjögurra ára dreng sem hékk fram af svölum. Björgunin náðist á myndband sem hefur notið mikilla vinsælda.

Á einungis nokkrum sekúndum tókst Gassama að klifra upp húsið og komast til drengsins þar sem hann hékk fram af svölum á fjórðu hæð. Maður á svölunum við hlið drengsins hafði þó náð taki á honum og kom í veg fyrir að hann félli.

Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var Gassama búinn að bjarga drengnum og í samtali við AFP fréttaveituna sagði slökkviliðsmaður að Gassama hefði sýnt mikið hugrekki.

Sjálfur sagði Gassama að hann hefði brugðist við án þess að hugsa.

„Ég sá allt þetta fólk kalla og bíla flauta. Ég klifraði þarna upp og, þökk sé guði, bjargaði barninu,“ sagði Gassama. „Ég varð hræddur eftir að ég bjargaði barninu. Við fórum inn í stofu og þar byrjaði ég að nötra. Ég þurfti að setjast niður.“

Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, sagði á Twitter í dag að hún hefði rætt við Gassama og þakkað honum fyrir björgunina. Hann kom til Frakklands frá Malí fyrir nokkrum mánuðum og sagðist vilja byggja sér nýtt líf þar. Hidalgo sagði ljóst að íbúar Parísar yrðu tilbúnir til að styðja við bakið á honum.

Emmanuel Macron hefur boðið Gassama á fund sinn í forsetahöllinni á morgun.

Lögreglan segir foreldra drengsins ekki hafa verið heima og var faðir hans fluttur til yfirheyrslu og ákærður fyrir að skilja barnið eftir. Móðir drengsins var á ferðalagi.

Uppfært eftir að í ljós kom að um dreng var að ræða en ekki stúlku eins og fram kom í fyrstu frétt AFP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×