Erlent

Hýddir fyrir samkynhneigð

Samúel Karl Ólason skrifar
Mennirnir fengu 83 högg hvor.
Mennirnir fengu 83 högg hvor. Vísir/AFP
Tveir menn sem höfðu verið dæmdir fyrir samkynhneigð samkvæmt Sharia-lögum voru hýddir opinberlega í Indónesíu í nótt. Þetta er fyrsta mál sinnar tegundar í landinu en mennirnir eru frá Acheh-héraði, sem þykir mjög íhaldssamt og er eina svæði landsins sem fylgir Sharia-lögum.

Mennirnir tveir, sem eru 20 og 23 ára gamlir, voru leiddir á svið fyrir framan þúsundir manna sem bauluðu og hrópuðu óyrðum að þeim, samkvæmt AFP fréttaveitunni. Þeir höfðu verið dæmdir til 83 högga með staf, en tvö högg voru dregin frá vegna þess hve lengi þeir hafa verið í varðhaldi.

Áður en mennirnir voru leiddir á svið sagði meðlimur klerkaráðs Ache, Abdul Gani Isa, að mennirnir ættu að þjóna almenningi sem viðvörun. Hann sagði refsingar eftir Sharia-lögum vera vel ígrundaðar og að þær brytu ekki gegn mannréttindum.

Auknir fordómar

Mennirnir tveir voru handteknir saman í mars þegar sjálfskipaðir löggæslumenn ruddust inn í hús þar sem þeir hittust. Þá voru birt myndbönd af árásinni þar sjá mátti árásarmennina berja mennina og sparka í þá. Annar þeirra lá þá nakinn í gólfinu.

Sharia-lög voru sett á í Ache héraði árið 2001, eftir samkomulag á milli yfirvalda þar og ríkisstjórnar landsins, sem ætlað var að binda endi á langvarandi uppreisn í héraðinu. Kynlíf samkynhneigðra var svo bannað fyrir tveimur árum, en það er hvergi annars staðar bannað í Indónesíu.

AFP segir að undanfarið ár hafi fordómar í garð LGBT-fólks aukist verulega í Indónesíu. Ráðherrar, trúarleiðtogar og aðrir hafa ítrekað fordæmt samkynhneigð opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×