Innlent

Hvorugur vill greiða talþjálfun barna

Deilt er um hver eigi að greiða niður kostnað vegna stúlku sem sækir talþjálfun til Reykjavíkur.
Deilt er um hver eigi að greiða niður kostnað vegna stúlku sem sækir talþjálfun til Reykjavíkur. Fréttablaðið/Valli
Móðir í Hveragerði fær hvorki stuðning frá sveitarfélaginu né Sjúkratryggingum Íslands til að greiða kostnað vegna talþjálfunar dóttur sinnar.

Móðirin vill fá endurgreiddan hluta af talþjálfun sem sérfræðingur telur nauðsynlegt að dóttir hennar njóti. Eftir að hún fékk synjun frá Sjúkratryggingum leitaði hún til bæjaryfirvalda í Hveragerði enda vísuðu Sjúkratryggingar henni þangað.

Bæjarráðið segir sér ekki fært að verða við bón móðurinnar og vísar henni til baka á Sjúkratryggingar enda sé skylda þeirra að taka þátt í greiðslu vegna talþjálfunar barna og unglinga ótvíræð.

Kveðst bæjarráðið átelja Sjúkratryggingar harðlega fyrir að hafna erindi konunnar. Það sé bæði andstætt lögum og reglugerðum og í andstöðu við upplýsingar á heimasíðu Sjúkratrygginga. Þar komi fram að greiða eigi áttatíu prósent af kostnaði við nauðsynlega talþjálfun fyrstu þrjátíu skiptin fyrir börn yngri en átján ára.

Sjúkratryggingar vísa hins vegar í samning sinn við talmeinafræðinga. Bæjarráðið segir sveitarfélögin ekki aðila að þeim samningi og hann geti ekki lagt skyldu á sveitarfélög umfram það sem kveðið sé á um í lögum.

Samband íslenskra sveitarfélaga er sagt hafa unnið að lausn málsins. „Hvetur bæjarráð þá aðila sem og viðkomandi ráðuneyti til að finna ásættanlega lausn á þessu máli hið allra fyrsta því börnin líða fyrir þessa stöðu,“ segir bæjarráðið.- gar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×