Menning

Hvort tveggja í senn, kór og karlaklúbbur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Söngfélagar á einni af hinum ströngu æfingum fyrir afmælistónleikana. Stjórnandi er Árni Harðarson.
Söngfélagar á einni af hinum ströngu æfingum fyrir afmælistónleikana. Stjórnandi er Árni Harðarson. Vísir/Anton Brink

Við rekjum upphaf Fóstbræðra til 18. nóvember 1916. Þá komu 20 ungir menn saman á æfingu í kjallara KFUM heimilisins við Amtmannsstíg. Þeir höfðu verið í söngfélagi í fimm ár, sem studdi við starfsemi KFUM en þarna var tekið það skref að fá alvöru stjórnanda, Jón Halldórsson,“ segir Arinbjörn Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Karlakórsins Fóstbræðra.



 Hann segir Jón hafa mótað kórinn og stjórnað honum af snilli fram til 1949. „Jón var ekki menntaður í tónlist en var úr listrænni fjölskyldu, meðal annars á tónlistarsviðinu og stóð sig ljómandi vel, það sýndi sig þegar kórinn fór í mikla frægðarför til Noregs 1926, þar fékk hann glimrandi dóma. Félagarnir voru áhugasamir en vissu ekkert hvar þeir stóðu í samanburði við aðra fyrr en þeir fóru utan.“



Nýtt og eldra efni í bland

Tæpt verður á sögu kórsins í máli og myndum í söngskránni sem dreift verður í Hörpu í kvöld á afmælistónleikunum. Einnig fá lög að hljóma sem minna á fortíðina. Til dæmis kemur fram hópur sem kallar sig Fjórtán fóstbræður, í anda sams konar grúppu sem var gríðarvinsæl á 7. áratugnum.



 Helena Jónsdóttir kóreógrafer er sviðsstjóri tónleikanna að sögn Arinbjarnar. „Hennar hlutverk er að móta myndræna og áhugaverða umgjörð. Gestir sem sitja á efstu svölum í Eldborg eru býsna langt frá okkur söngmönnunum en Helena notar salinn til að efla upplifunina,“ lýsir hann og fer aðeins yfir dagskrá kvöldsins.



„Fyrir hlé verður flutt 20. aldar klassík og nýtt efni, meðal annars frumflutt tvö verk eftir ung tónskáld, Hreiðar Inga Þorsteinsson og Viktor Orra Árnason. Eftir hlé sýnum við hina hliðina á okkur og syngjum léttari lög sem eru betur til vinsælda fallin og líka mikilvæg fyrir félagsskapinn,“ segir Arinbjörn glaðlega. 



„Þá syngja Fjórtán fóstbræður og við fáum Stuðmennina Egil Ólafsson og Jakob Magnússon til liðs við okkur,“ segir Arinbjörn og upplýsir að sex þeirra sem voru í hinum einu sönnu Fjórtán fóstbræðrum syngi á tónleikunum. Einn þeirra sé Aðalsteinn Guðlaugsson sem hafi verið lengst allra í kórnum eða frá 1951. „Gamlir fóstbræður er sér kór en starfar innan okkar vébanda, þegar félagar eru komnir yfir sjötugt fara þeir í hann. Sá elsti þar er 92 ára.“

Það er hellingsvinna að vera framkvæmdastjóri stórs kórs þegar hann verður hundrað ára, að sögn Arinbjarnar.

Kór sem vill vera í forystu

Um 100 manns tilheyra Fóstbræðrum, af þeim verða um 80 á sviði í kvöld. Þeir kórfélagar sem lengst eiga á æfingar eru tveir menn frá Hveragerði og einn frá Akranesi. „Annar þeirra sem búa í Hveragerði hefur bara misst eina æfingu úr síðan 2009, þannig að Hellisheiðin hefur ekki verið honum farartálmi,“ upplýsir framkvæmdastjórinn sem sjálfur hefur verið samfellt í Fóstbræðrum frá 2002.



„Ég byrjaði reyndar 1996 en krakkarnir voru svo litlir þá og kórstarfið tók svo mikinn tíma að ég fór í salt í nokkur ár. Það er alltaf barátta að fá yngri menn í kórinn. Þess vegna breyttum við fyrirkomulaginu í fyrravetur og komum saman á einni lengri æfingu í viku í stað tveggja styttri áður. Okkur þykir gott að fá menn í kringum fertugt, ungir menn eru svo oft uppteknir í námi og með litla krakka. En starfið er gefandi og auðvitað er það viss samfélagsþjónusta sem við erum að sinna.“



Arinbjörn segir mikið verk að vera formaður í svona stórum kór, sérstaklega þegar hann verði 100 ára! „Það er bara mjög mikið mál. En maður gerir þetta fyrir félagsskapinn,“ segir hann og upplýsir að 40 æfingar hafi verið á dagskránni síðan í ágúst, fyrir utan alls konar stúss í sambandi við afmælið.



„Fóstbræður eru metnaðarfullur kór sem vill vera í forystu í karlakóramenningunni hér á landi og halda vissum standard,“ segir Arinbjörn.



 „Við erum hluti af norrænni karlakórahefð sem mótaðist á 19. öld. Hluti af henni er starfsaldursviðurkenningar, orður og fleira. Á bak við eina orðu getur verið ómældur tími og starf svo menn bera þær með stolti og réttu. Við fáum brons fyrir fimm ár, silfur fyrir tíu, gull fyrir fimmtán og heiðursgullhörpu fyrir tuttugu ára starf. Svo fá menn silfurpela og gullúr þegar áratugunum fjölgar. Þetta er svona hvort tveggja í senn kór og karlaklúbbur.“



Fóstbræður eiga sitt félagsheimili og hafa átt í 50 ár. „Við fengum úthlutað lóð á horni Langholtsvegar og Drekavogs. Fengum byggingarfélag til að gera það fokhelt og lukum við æfingahúsnæðið sjálfir,“ lýsir Arinbjörn.



 „Það sem skipti rosalegu máli í sambandi við húsakaupin var að allur afrakstur Fjórtán fóstbræðra sem voru starfandi milli 1963 og 1975, og seldust betur en Bítlarnir í upphafi, rann beint í félagsheimilissjóðinn, þeir fengu ekki krónu sjálfir.“

 

Karlakór KFUM, forveri Fósbræðra, í vel heppnaðri Noregsferð 1926.

Opnir tónleikar á morgun

Á morgun, laugardag, verða Fóstbræður með eigin afmælishátíð. Byrjað verður á að leggja blómakrans á leiði Jóns Halldórssonar, fyrsta stjórnandans, klukkan þrjú í Fossvogskirkjugarði. Þaðan fara þeir í rútu í niður í miðborg og ætla að vígja skjöld í gamla KFUM-salnum á bak við MR, þar sem ballið byrjaði. Þaðan ganga þeir fylktu liði í Hörpuna, með smá viðkomu hjá styttunni af séra Friðriki Friðrikssyni, KFUM-manni, leggja þar annan blómsveig og taka lagið.



Í Hörpu verða svo ókeypis tónleikar í boði Fóstbræðra klukkan hálf sex, uppi á annarri hæð. „Þar ætlum við að syngja aukalögin, gömlu karlakóraperlurnar og endum á þjóðsöngnum. Þetta verður svona þriggja kortéra til klukkutíma stund í Hörpuhorni og allir eru velkomnir,“ segir Arinbjörn. Hann tekur fram að hófið sem haldið verði í framhaldinu í Norðurljósum með ræðum og söng sé bara fyrir kórmenn og þeirra konur. Það endi á Stuðmannaballi fyrir þennan lokaða hóp og spurst hafi út að Ragga Gísla ætli að syngja með!

 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. nóvember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×