Skoðun

Hvort er meira virði aurarnir þínir eða barnið þitt?

Geirlaug Ottósdóttir skrifar
Þegar kennslu lýkur í vor hef ég  unnið við kennslu í sautján ár. Fyrst kenndi ég unglingum  í tíu ár og síðan hef ég kennt á yngsta stigi. Mér finnst starfið mitt skemmtilegt og gefandi en ég færi frjálslega með sannleikann ef ég segði ekki að oft hef ég verið við það að gefast upp! Ég ætla ekki að ræða í smáatriðum um ástæður þess, við vitum öll um stóru bekkina, börnin með allar sértæku þarfirnar sem kalla á annars konar færni en hægt er að veita í bekkjarkennslunni. Við þurfum að geta sinnt öllum margbreytileikanum sem býr í mannfólkinu. Þar á ég meðal annars við annars konar vinnufrið og vinnuumhverfi en bjóðast í fjölmennum  bekkjum.

Árið 1997 fluttum við, fjölskylda mín og  ég til Hornafjarðar og ég hóf kennslu í unglingadeildinni þar. Mér fundust unglingarnir skemmtilegir og ég bar gæfu til að ná vel til þeirra. Ég komst fljótt að því að það þýddi ekkert fyrir mig að taka sjálfa mig allt of hátíðlega og líklega alveg nauðsynlegt að hafa gaman að uppátækjum unglinganna. Ég var satt að segja svo lánsöm að ég hafði  gaman af krökkunum og ég naut þess að kynnast þessum flottu einstaklingum sem voru að fóta sig í lífinu. Þegar svo verkfallið brast á 2004 var ég nýkomin úr fæðingarorlofi og var full tilhlökkunar að hefja kennslu á ný. Verkfallið dróst á langinn eins og við munum öll of vel og í kennarahópnum var fólk farið alvarlega að hugsa sér til hreyfings.

Ég íhugaði vel og lengi hvað gera skyldi og hugsaði um ýmis störf sem ég gæti unnið. Ég er með BA próf í táknmáls- og viðskiptafræði og viðbótarnám í táknmálstúlkun fyrir  utan B.Ed prófið þannig að ég hefði að öllum líkindum getað fengið vinnu t.d. við táknmálstúlkun.  Ég hafði á yngri árum unnið í verslun, banka og á skrifstofu og var því tiltölulega vel kunnug ýmsum störfum. Til að gera langa sögu stutta gerði ég á endanum upp við mig að ég gæti  ekki hugsað mér nokkurt annað starf en kennslu. Ég var pikkföst í vefnum! Síðan eru liðin 10 ár og þar með er ég auðvitað 10 árum eldri, spurning hvort ég kæmist að sömu niðurstöðu núna?

Þegar ég bjó á Hornafirði fannst mér stundum eins og sveitarfélagið áttaði sig ekki á að það kostar að reka grunnskóla. Mér fannst tölvukosturinn vera úreltur, húsnæðið þarfnaðist lagfæringar og bækurnar  gamlar og slitnar. Þegar ég flutti til höfuðborgarinnar hugsaði ég mér gott til glóðarinnar, þar hlyti að drjúpa smjör af hverju strái! Það var því áfall fyrir mig þegar ég komst að því að sú var ekki raunin! Málið er ekki flókið, það kostar að reka skóla! Við höfum  fengið að heyra að skólar okkar séu dýrari en aðrir skólar í OECD löndunum. Það kostar líka að ráða sérfræðinga í vinnu. Við tölum stundum um að kennarinn þurfi að vera margir sérfræðingar í einum. Stundum hugsa ég þegar ég fæ launaseðilinn minn að það væri ljúft ef ég fengi nú samanlögð laun umsjónarkennarans, sálfræðingsins og fjölskylduráðgjafans. Kennarinn er sérfræðingur. Eru þeir sem kaupa af okkur þjónustu með það á hreinu?

Síðan ég flutti til Reykjavíkur hef ég verið að kenna á yngsta stigi. Mér finnst það líka skemmtilegt og alveg óskaplega gott fyrir egóið. Á þessum aldri eru nemendur sannfærðir um að kennarinn þeirra sé með því merkilegra sem gengur um á þessari jörð. Þeim mun meiri er ábyrgðin sem okkur er sett á herðar. Við erum miklir örlagavaldar í lífi barnanna sem okkur er treyst fyrir og áhrifin vara alla ævi.! Á þeim 17 árum sem ég hef verið að kenna hefur kennarastarfið breyst mikið. Elsta dóttir mín sagði við mig um daginn þegar ég skreiddist inn úr dyrunum klukkan að verða hálf sex: „Mamma þú varst aldrei svona lengi í vinnunni þegar ég var lítil á Hornafirði.“

Þetta kom mér til að hugsa. Hvað hefur breyst? Ég gat yfirleitt hagað vinnu minni þannig að ég var að koma heim um svipað leyti og börnin mín voru að koma heim úr skólanum. Að vísu komu álagspunktar þar sem ég tók verkefni og próf með mér heim en það var ekki daglegt brauð. Bekkirnir voru minni þannig að umsjónarþátturinn tók minni tíma frá undirbúningnum. Sjaldan þurfti ég að fara á skilafundi til þess að ræða um greiningu annarra sérfræðinga á nemendum mínum og ég man aldrei eftir að ég þyrfti að taka klukkutíma símtöl við aðra sérfræðinga sem eru að leita upplýsinga um nemendur mína. Ég var ekki í neinum sérstökum teymum um ákveðna nemendur og ég man ekki eftir að ég hafi farið heim með áhyggur og vanlíðan af því ég vissi að ég hefði ekki náð að undirbúa mig eða að ég hefði ekki náð að sinna almennilega honum Nonna sem er bæði með þroskaskerðingu og einhverfu. Allt sem við erum að gera í dag og lýtur að nemendum okkar er mikilvægt.

Menn mega ekki skilja orð mín á þann hátt að allt hafi verið betra hér áður fyrr. Eitt af því sem tekur mikinn tíma í stórum bekk í skóla án aðgreiningar er samstarf við foreldra. Það líður aldrei vinnudagur hjá mér án þess að ég sendi póst eða svari símtölum frá foreldrum. Sem betur fer! Foreldrasamstarf er gríðarlega mikilvægt! Teymisvinna, kennarafundir, samskipti við aðra sérfræðinga, skráningar - allt er þetta nauðsynlegur hluti af kennarastarfinu í þjóðfélagi margbreytileikans og ég tel þessi störf ekki eftir mér. Hins vegar fer ég fram á að launin mín séu í samræmi við menntun, reynslu, álag og ábyrgð.

Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína að ég vil halda sveigjanlegum vinnutíma kennara. Ég vil að mér sé treyst til að skila þeirri vinnu sem mér er ætlað að vinna. Þá segja sum okkar að við séum hvort eð er yfirleitt í skólanum til fimm á daginn, hverju breytir þá þó það sé bundið í samninga eins og hjá öllum öðrum? Það eru nefnilega alls ekki allar stéttir með bundinn vinnutíma. Þó að vinnutíminn okkar sé að einhverju leyti sveigjanlegur þá eru fríin okkar það svo sannarlega ekki. Við getum ekki ákveðið að taka hluta af sumarfríinu okkar í febrúar til að stytta veturinn eins og margir kjósa að gera. Það veltur þá á því hversu liðlegur skólastjórinn er og hvort kennarinn hefur möguleika á að vinna upp þessa tíma. Svo finnst mér ólíðandi að ég skuli aldrei sjá það í launaumslaginu mínu þegar ég vinn lengur  en mína umsamda fjörutíu og þrjá tíma.  Þá segið þið e.t.v.: „Þú átt ekki að vera svona mikil gufa og taka að þér verkefni sem þú færð ekki greitt fyrir! Það eru einmitt svona kennarar eins og þú sem standa stéttinni fyrir þrifum!“

Gott og vel, þetta er alveg lögmæt gagnrýni og í raun er ég hjartanlega sammála! Þetta er bara ekki alveg svona einfalt. Setjum upp  dæmi: Það er mánudagur, dagurinn sem ég hafði ætlað mér að skipuleggja vikuna eftir kennslu, því að á mánudögum eru engir fastir fundir í skólanum. Þennan dag fer hins vegar allt úr böndunum, nemandi – með alvarleg vandamál missir gjörsamlega stjórn á sér, ræðst á annan nemanda og krotar á veggi í stofunni. Undirbúningstíminn að lokinni kennslu fer í að gera upp þetta mál, skrá í Mentor og tala við foreldra. Gott og vel, þriðjudagarnir eru frekar fastir í forminu þannig að þetta kemur ekki að sök. Á þriðjudegi eftir kennslu er kennarafundur svo að ekki skipulegg ég neitt þá. Miðvikudagur, engir fundir svo þá get ég skipulagt stöðvavinnuna í íslensku og stærðfræði sem á að vera á fimmtudag og föstudag. Ég er sest niður við kennaraborðið eftir kennslu og hugurinn kominn á flug þegar bankað er á hurðina. Angistarfull móðir  er fyrir utan og biður um að fá að tala við mig vegna barnsins síns sem á í miklum erfiðleikum. Segi ég þá ekki : „Nei veistu ég hef bara ekki tíma, nú er ég í mínum undirbúningstíma sem ég á rétt á samkvæmt kjarasamningi!?“  Nei, það geri ég  nefnilega ekki! Af hverju? Því ég er mannleg og finn til með konunni.

Samtalið tekur eina og hálfa klukkustund og ég er þakklát fyrir að geta veitt þennan stuðning. Þá á ég eftir að undirbúa mig. Komin heim kl. 18! Svona er þetta bara, ég hef enga trú á að ég sé eini kennarinn sem svona hagar til hjá. Við vinnum með lifandi fólk og við erum mannleg, sem betur fer! Þetta er einfaldlega hluti af starfi okkar sem umsjónarkennara. Hins vegar hlýtur að vera skýlaus krafa að við fáum greitt aukalega þegar vinnutíminn okkar dregst svona á langinn. Þetta er yfirvinna! Nú mætti spyrja: „Af hverju slepptirðu því ekki bara að undirbúa stöðvavinnuna og fórst heim?“  Vegna þess að ég hef faglegan metnað og ber virðingu fyrir nemendum mínum. Það er ekki hægt að standa óundirbúinn fyrir framan þrjátíu átta ára gömul börn.

Kennarar  vinna frábært starf á öllum skólastigum um allt land. Ég fyllist stolti þegar ég fer inn í skóla í heimsóknir og skoða verkefni nemendanna. Ég hef farið á mörg námskeið á kennsluferlinum en það sem mér hefur þótt lærdómsríkast er að máta mig við aðra kennara, læra af þeim og fá hugmyndir jafnframt því að deila hugmyndum sjálf. Stundum sé ég verkefni sem ég hef búið til hangandi uppi á vegg í öðrum skólum. Það finnst mér frábært!  Það fer því alltaf meira og meira í taugarnar á mér og mér misbýður sem fagmanneskju þegar ég heyri sleggjudóma um skólastarf.

Sérstaklega þykir mér leiðinlegt að heyra þegar mæt skólamanneskja sem rekur einkaskóla á leik- og grunnskólastigi vogar sér að halda því fram að í grunnskólum sveitarfélaganna sé sáralítið skapandi starf í gangi, að skólinn hafi sáralítið breyst í áratugi og samfélagið kalli á breytingar. Það sanni biðlistarnir inn í hennar skóla! Þetta eru sleggjudómar! Það er ótrúlegt að þurfa að hlusta á yfirlýsingar hennar að nauðsynlegt sé „að ná þessum börnum áður en grunnskólinn eyðileggur þau“!

Í skólum er unnið mikið skapandi starf og kennarar eru óþreytandi að finna upp leiðir til að mæta nemendahópi sem verður sífellt breiðari og fjölskrúðugri hvað varðar líkamlegt og andlegt atgervi. Það að börn sitji í áttatíu mínútur kyrr í sætinu sínu og vinni í bókum heyrir til algjörrar undantekningar, það fullyrði ég! Skólafólk á að standa saman. Við eigum að hrósa og hvetja í stað þess að upphefja einn á kostnað annars. Við erum öll að vinna að sama markmiði, sama hvort við vinnum í einkageiranum eða hjá hinu opinbera.

Þann 4. apríl, þegar 6. þingi Kennarasambands Íslands var u.þ.b. að ljúka og minnst var á þingið í fréttum RÚV var sagt frá því í sama fréttatíma að nú ætti að setja í lög að hluthafafundur gæti heimilað að bankastjórnum að hækka kaupauka stjórnenda upp í 100% af árslaunum.  Þessi frétt kom rétt á undan fréttinni um að samningur lægi á borðinu milli framhaldsskólakennara og viðsemjenda þeirra um hækkun sem myndi skila framhaldsskólakennurum launum sem væru einungis vasapeningar hjá þessum bankastarfsmönnum!  Það ætti kannski að fylgja með sögunni að ég hef það fyrir satt að bónusþegarnir séu nú þegar með hátt í árslaun kennara í mánaðarlaun þó er talið að þeir þurfi að tvöfalda launin sín með bónusum!  Gleymum því ekki að þetta er fólkið sem leggur sinn allra verðmætasta fjársjóð, börnin,  í hendurnar á kennurum. Er þetta eðlilegt verðmætamat? Ég segi nei!

Ég segi og vil láta það hljóma svo að heyrist út um allar byggðir þessa lands svo að undir taki í fjöllunum: Kæru landsmenn- við erum að sýsla með börnin og unglingana ykkar. Við erum að hlúa að anda þeirra og sál auk þess sem við bjóðum þeim upp á margs konar fróðleik- leggja grunninn að ævifarsæld þeirra.  Eru gæslumenn peninganna ykkar meira virði en gæslumenn barnanna ykkar?

Ég var í kaffiboði fyrir nokkru og eins og venjulega var ég spurð hvort ég væri ekki á leiðinni í verkfall. Ég svaraði eins og ég er vön að verkfall væri ekki takmark í sjálfu sér en við þyrftum auðvitað að fá leiðréttingu á laununum okkar. Þá sagði spyrjandinn: "Af hverju getið þið ekki bara skilið að það eru ekki til peningar til að borga ykkur meira, svo bitnar þetta bara á börnunum!" Mér svelgdist á kaffinu en reyndi að halda ró minni og vera kurteis. Og já því miður bitna verkföll kennara á börnunum, þau bitna á öllum.

Þegar þetta er skrifað hafa samningar grunnskólakennara verið lausir í tvö ár og er drjúgur tími liðinn frá því að viðræðum var vísað til ríkissáttasemjara. Það er því ekki hægt að halda öðru fram en að grunnskólakennarar hafi verið þolinmóðir.  Nú stöndum við frammi fyrir atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun í þrjá daga í maí. Staðan er grafalvarleg fyrir okkur öll. Það er grafalvarlegt og mikið íhugunarefni að þeir sem annast raunverulegt gull þjóðarinnar og framtíðarfjársjóð skuli þurfa að berjast á þennan hátt fyrir mannsæmandi launum.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á greinar@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×