Handbolti

Hvorn lætur Gunnar byrja?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Markverðir Hauka, Giedrius Morkunas og Grétar Ari Guðjónsson.
Markverðir Hauka, Giedrius Morkunas og Grétar Ari Guðjónsson. vísir/anton
Ein þeirra ákvarðana sem bíður Gunnars Magnússonar, þjálfara Hauka, fyrir oddaleikinn gegn Aftureldingu í kvöld er hvorn hann á að byrja með í markinu; Giedrius Morkunas eða Grétar Ara Guðjónsson.

Giedrius hefur byrjað flesta ef ekki alla leiki Hauka í vetur en í fjórða leiknum á mánudaginn breytti Gunnar út af vananum og setti hinn 19 ára Grétar í byrjunarliðið.

Unglingalandsliðsmarkvörðurinn þakkaði heldur betur traustið og varði 25 skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig í leiknum.

Sjá einnig: Patrekur: Þreytan hefur ekkert háð Haukunum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Grétar reynist Haukum vel í úrslitakeppninni en hann átti einnig frábæran leik þegar Hafnarfjarðarliðið vann ÍBV, 28-30, á útivelli í fjórða leik liðanna í undanúrslitunum. Grétar kom inn á eftir að Giedrius fékk að líta rauða spjaldið eftir fimm mínútna leik og varði 17 skot (40%).

Giedrius hefur verið ein af burðarrásum Haukaliðsins á undanförnum árum og var t.a.m. magnaður í úrslitakeppninni í fyrra þar sem Hafnfirðingar unnu alla átta leiki sína á leið sinni að Íslandsmeistaratitlinum.

Litháinn hefur ekki alveg fundið sama takt í úrslitakeppninni ár. Í leikjunum fjórum í úrslitaeinvíginu til þessa er Giedrius aðeins með 28,1% markvörslu en í úrslitaeinvíginu í fyrra var hlutfallsmarkvarsla hans 46,7%.

Sjá einnig: Anton og Jónas hita upp fyrir bronsleikinn í Köln með oddaleiknum í kvöld

Það verður því spennandi að sjá hvorn markvörðinn Gunnar veðjar á í upphafi leiksins í kvöld þar sem sjálfur Íslandsmeistaratitilinn er undir.

Leikur Hauka og Aftureldingar hefst klukkan 20:00. Hægt verður að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×