Innlent

Hvorki dúfurnar né húsnæðið tryggt

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Stór hluti íslenska skrautdúfnastofnsins drapst í eldsvoða í Hafnarfirði í gær. Eigendur dúfnanna segja tjónið bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt, en hvorki dúfurnar né húsnæðið sem þær voru í, var tryggt.

Vegfarandi tilkynnti slökkviliðinu um reyk frá húsinu á fjóðra tímanum í nótt og var sendur slökkvibíll á vettvang, og þá kom í ljós að eldur logaði í húsinu. Dúfurnar voru í búrum og tókst slökkviliðsmönnum að bjarga nokkrum búrum út en flestar dúfurnar drápust.

Talið er öruggt að kviknað hafi í út frá hitalampa í kofanum en fjórir slökkviliðsbílar voru notaðir til að slökkva eldinn og voru slökkviliðsmenn að í um þrjár klukkustundir. Eins og sést á myndskeiðnu hér að ofan er aðkoman ljót og húsið ónýtt, en á bilinu tvö til þrjú hundruð dúfur drápust í brunanum.

Þorvaldur Færseth, formaður Skrautdúfnafélags Hafnarfjarðar, segir að áralöng kynbótaræktun hafi orðið að engu í eldsvoðanum.

„Þetta er alveg skelfilegt. Það er ömurlegt að vakna við svona fréttir eftir áralanga ræktun. Þetta er meira tilfinningalegt tjón en fjárhagslegt. Maður hefur bara ekki metið fuglana til fjár,“ segir hann en hvorki voru tryggingar á húsinu né dúfunum. 

Jón Magnús Guðmundsson missti einnig allar sínar dúfur í brunanum en hann hefur verið með annan fótinn í dúfnarækt frá barnsaldri. Þeir stofnar sem hann átti og hafði byggt upp eru nú allir farnir. Hann segist ekki hafa gert upp við sig hvort hann ætli að hefja ræktun að nýju. 

„Ég bara veit það ekki, við verðum að sjá hvað gerist,“ segir Jón Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×