Fótbolti

Hvorki Bale né Ronaldo með Real Madrid í kvöld

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ronaldo og Bale
Ronaldo og Bale vísir/getty
Real Madrid verður án sinna tveggja skærustu stjarna þegar liðið sækir Espanyol heim í kvöld í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Cristiano Ronaldo og Gareth Bale missa báðir af leiknum í Barcelona í kvöld. Ronaldo er búinn að jafna sig af meiðslunum sem hann varð fyrir í úrslitaleik Evrópumeistaramótsins en liggur með flensu. Bale á við smávægileg meiðsli að stríða í mjöðm.

Zinedine Zidane þjálfari Real Madrid staðfesti þetta við fjölmiðla í aðdraganda leiksins í kvöld en báðir leikmennirnir eru væntanlegir aftur í liðið þegar Real Madrid fær Villarreal í heimsókn á miðvikudaginn.

„Cristiano ferðast ekki með okkur, hann er með hálsbólgu og heldur sig heima. Hann er ekki tilbúinn,“ sagði Zidane við fjölmiðla.

„Bale fékk fast högg á mjöðm og við tökum enga áhættu. Við eigum góða leikmenn sem geta leyst þá meiddu af hólmi.

„Ég vil hafa Gareth 100% heilan fyrir erfiðan leik á miðvikudag. Á morgun (í kvöld) gæti hann fengið högg á sama stað aftur og verið frá í 10 daga eða lengur,“ sagði franski þjálfarinn.

James Rodriguez mun fá tækifæri í byrjunarliði Real Madrid vegna meiðsla Ronaldo og Bale en hann hefur verið orðaður við Manchester United að undanförnu og sagður ósáttur við að byrja alla leiki Real Madrid til þessa á tímabilinu á bekknum.

Leikur Espanyol og Real Madrid er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD klukkan 18:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×