Fótbolti

Hvorki Arnór né Elmar nýttu kosningaréttinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnór Ingvi, Theodór Elmar og Lars Lagerbåck á fundinum í morgun.
Arnór Ingvi, Theodór Elmar og Lars Lagerbåck á fundinum í morgun. Vísir/Vilhelm
Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Genf, mætti á hótelið til strákanna okkar í Annecy í gærkvöldi í þeim tilgangi að gefa þeim tækifæri til að kjósa í forsetakosningunum. Arnór Ingvi Traustason og Theodór Elmar Bjarnason voru spurðir út í heimsóknina á blaðamannafundinum í Annecy í morgun en í ljós kom að hvorugur hafði nýtt atkvæðarétt sinn.

„Ég kaus ekki þannig að það er betra að Emmi taki þessa spurningu,“ sagði Arnór Ingvi og allir horfðu á Emma.

„Ég kaus reyndar ekki heldur,“ sagði Theodór Elmar og brosti. „Þegar Toggi dró sig út var ég ekki með neinn kandídat í huga,“ bætti Emmi við og vísaði til þess að Þorgrímur Þráinsson, sem er í starfsliðinu, íhugaði alvarlega að bjóða sig fram en gerði svo ekki.

„Ég vona að hinir í liðinu hafi haft vit á því að kjósa réttan mann,“ sagði Elmar.

Þá skaut Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, inn: „Ég kaus réttan mann.“


 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×