Innlent

Hvolpar skildir eftir bjargarlausir nærri þjóðveginum á Kjalarnesi

atli ísleifsson skrifar
Umráðamaður hvolpanna er óþekktur og liggur enginn undir grun að svo stöddu.
Umráðamaður hvolpanna er óþekktur og liggur enginn undir grun að svo stöddu. Vísir/Vilhelm
Hvolpar fundust undir kyrrstæðum bíl á Kjalarnesi að kvöldi fimmtudagsins 15. desember síðastliðinn þar sem þeir höfðu verið skildir þar eftir bjargarlausir nálægt þjóðveginum.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að verknaðurinn hafi verið kærður til lögreglu.

„Ábending barst Matvælastofnun frá íbúum á Kjalarnesi sem fundu hvolpana. Um var að ræða þrjá blendingshvolpa sem fundust nálægt þjóðveginum. Einn hafði orðið fyrir bíl en hinir tveir fundust á lífi, töluvert vannærðir. Lyktin af þeim gaf til kynna að þeir hefðu verið haldnir í útihúsum. Farið var með hvolpana til Dýraspítalans í Garðabæ og þeim fundin ný heimili að aðhlynningu lokinni.

Í lögum um velferð dýra segir að óheimilt sé að yfirgefa dýr í bjargarlausu ástandi. Jafnframt er óheimilt að sleppa dýrum sem hafa alist upp hjá mönnum út í náttúruna í þeim tilgangi að þau verði þar til frambúðar. Ef dýr strjúka eða sleppa úr haldi skulu umráðamenn þeirra þegar gera ráðstafanir til að handsama þau. Umráðamanni eða sveitarfélagi, sé umráðamaður ekki þekktur, er skylt að smala eða handsama dýr, önnur en villt dýr, sem ætla má að líði fyrir umhirðu- eða skjólleysi úti í náttúrunni.

Umráðamaður hvolpanna er óþekktur og liggur enginn undir grun að svo stöddu. Þeir sem kunna að hafa vitneskju um málið eru hvattir til að setja sig í samband við Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×