Erlent

Hvítum fána flaggað á Brooklyn-brúnni

Atli Ísleifsson skrifar
Þessi sjón blasti við New York-búum sem litu á Brooklyn-brúna í gærmorgun.
Þessi sjón blasti við New York-búum sem litu á Brooklyn-brúna í gærmorgun. Vísir/AFP
Lögregla í New York þurfti að sinna heldur óvenjulegu útkalli í gærmorgun þegar tilkynning barst um að hvítum fána væri flaggað á Brooklyn-brúnni.

Vanalega eru tveir bandarískir fánar við hún á brúnni sem tengir Brooklyn-hverfi og Manhattan. Í fyrrinótt hafði hins vegar einhver komið upp hvítþveginni útgáfu af bandaríska fánanum þar sem enn sást í stjörnur og rendur bandaríska fánans.

„Þetta er merkilegt. Það er fáránlegt að einhver hafi getað farið þangað upp án þess að nokkur hafi orðið þess var,“ sagði sjónarvottur í samtali við CBS New York.

Á myndbandsupptökum sést hvernig fámennur hópur manna fer yfir brúna um klukkan þrjú í fyrrinótt. Á sama tíma er slökkt á ljósunum sem vanalega lýsa upp brúna.

„Það er heppni að þeir komu bara upp fána en ekki sprengju,“ hefur New York Post eftir heimildarmanni sínum innan lögreglunnar. „Það hefði verið skelfilegt. Hver veit hvaða skaða þeir hefðu getað valdið. Þetta mál er allt hið vandræðalegasta.“

Lögregla í New York segist líta málið alvarlegum augum. Ekki er ljóst um hvað vakti fyrir mönnunum en sumir telja að um listrænan gjörning hafi verið að ræða.

Um 120 þúsund bílar fara yfir brúna á hverjum degi, auk fjögur þúsund hjólareiðamanna og þrjú þúsund gangandi vegfarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×